Verkfræðistofan Mannvit og alþjóðlega verkfræðifyrirtækið Technip hafa undirritað samstarfssamning um þróunarverkefni á sviði jarðhitanýtingar í Bandaríkjunum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Mannvit en þar kemur fram að markmið samstarfsins er að bjóða þeim sem standa að þróunarvinnu á sviði jarðhitanýtingar í Bandaríkjunum alla þjónustu hvað varðar ráðgjöf verkefnastjórnun, rannsóknir, boranir, hönnun og byggingastjórnun við uppbyggingu jarðvarmavirkjana.

„Það hefur hvergi verið virkjað eins mikið af jarðhita í heiminum eins og í Bandaríkjunum. Þar er nú átak í gangi til að gera enn betur og því býður samstarfið upp á mikil sóknarfæri fyrir okkur,“ segir Runólfur Maack, aðstoðarforstjóra og yfirmanns erlendrar starfsemi Mannvits í tilkynningunni.

Í tilkynningunni segir að Technip sé leiðandi fyrirtæki á heimsvísu á sviði verkefnastjórnunar, hönnunar og byggingastjórnunar. Aðalstarfsemi fyrirtækisins er fyrir olíu- og gasiðnaðinn en með samstarfinu við Mannvit hyggst Technip hasla sér völl í jarðhitaiðnaðinum einnig. Starfsmenn fyrirtækisins eru um 23.000 í 46 löndum í fimm heimsálfum, en Technip hyggst nota skrifstofu sína í Claremont, á Los Angeles svæðinu, fyrir uppbyggingu í jarðhitanum.