Már Guðmundsson segir að ekki sé ljóst að hve miklu leyti frétt Morgunblaðsins á fimmtudaginn í síðustu viku hafi byggt á lekum úr Seðlabankanum. Í fréttinni var fullyrt að áform væru uppi innan Seðlabankans um að takmarka fjárfestingarkosti aflandskrónueigenda, og t.d. að banna þeim að eiga styttri ríkisskuldabréfaflokka. Már sagði að margir hópar væru að vinna þúsundir hugmynda um hvernig aflétta mætti höftunum og alls ekki væri víst að neinar þeirra yrðu að veruleika. Hins vegar hefði það verið ábyrgðarhluti af hálfu Morgunblaðsins að birta frétt, sem gæti haft mjög mikil áhrif á skuldabréfamarkaði, án þess að fá hana staðfesta hjá Seðlabankanum.

Á kynningarfundi í Seðlabankanum í dag var Már spurður út í 50/50 leiðina og hvort hún hefði skilað einhverjum árangri. Vísbendingar væru um að í gegnum hana væri að koma fjármagn sem hefði hvort eð er hefði komið inn í landið. Með öðrum orðum væri verið að veita mönnum afslátt af krónum sem hefðu keypt þær afsláttarlaust.

Már sagði að frá upphafi hafi öllum verið ljóst að hluti af því sem færi inn um 50/50 leiðina væri fé sem kæmi inn hvort eð er. Hins vegar væri ekki hægt að fullyrða að vegna þess að um sé að ræða innlenda aðila hefðu þeir alltaf komið með þetta fé heim. Það geti enginn komið inn um 50/50 leiðina með skilaskyldan gjaldeyri.

Á Íslandi sé tvöfalt gengi þar sem fjárfestingargengið er annað en gengi fyrir almennar vörur og þjónustu og afborganir af skuldum, líkt og Bretar voru með á sínum tíma. Þetta gefi einhvern hvata til að koma inn með fjármagn. Markmiðið með 50/50 leiðinni var að aflands- og innlandsgengið myndu færast nær, en það er ekki stórslys ef það gerist ekki að því gefnu að það ógni ekki verðbólgumarkmiðum.