Már Guðmundsson seðlabankastjóri kemur fyrir viðskiptanefnd Alþingis á morgun og ræðir söluferlið á Sjóvá. Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og nefndarmaður í viðskiptanefnd, segir að hann vilji fyrst og fremst fá svör við þeim spurningum sem ekki hefur verið svarað í tengslum við söluferli félagsins.

„Það liggur fyrir að engin svör hafa fengist utan þess sem komið hefur fram í fjölmiðlum. Már hefur ekki komið fyrir viðskiptanefnd í tvo mánuði á sama tíma og hann hefur komið fyrir aðrar nefndir þingsins. Hann virðist hafa ákveðið að koma ekki fyrir nefndina,“ segir Guðlaugur Þór í samtali við Viðskiptablaðið. Hann segir að Lilja Mósesdóttir, formaður nefndarinnar, hafi samviskusamlega fylgt eftir beiðni sjálfstæðismanna um að fá Má á fund nefndarinnar.

Guðlaugur Þór segir að seðlabankastjóri þurfi að svara hver vegna hæsta tilboði var ekki tekið. Hann segir söluferlið hafa verið opnara en þekkst hefur en hafi tekið furðulega beygju. Útskýringa vantar á hvers vegna hætt var við sölu eftir að ferlið var hafið. Þar vísar Guðlaugur í viðræður við fjárfestahóp sem Heiðar Már Guðjónsson leiddi. Hópurinn sagði sig frá viðræðum við Seðlabanka Íslands í nóvember sl. Þá var ekki komin niðurstaða í málinu. Í því söluferli var fjárfestahópurinn með hæsta tilboðið.

„Þá þarf að spyrja um hver sé aðdragandinn að sölunni nú og hvað hefur gengið á. Hvers vegna félagið var selt, á að því er virðist, lægra verði en boðið var áður,“ segir Guðlaugur Þór.

Tilkynnt var um í síðustu viku að SF1, fagfjárfestingasjóður í eigu Stefnis, kaupir  53% í Sjóvá af Eignasafni Seðlabanka Íslands (ESÍ).