Stýrivextir Seðlabankans er eitthvað sem allir kjósa að hafa skoðun á og það virðist vera mat flestra að þeir hafi síðustu misseri verið of háir. Meira að segja forsvarsmenn Seðlabankans hafa sagt að þeir myndu kjósa lægri vexti ef aðstæður gæfu tilefni til.

Í kjölfar ákvörðunar bankans í síðustu viku, þ.e. að lækka 7 daga veðlánavexti (stýrivexti) úr 12% í 11% og vexti á viðskiptareikningum innlánsstofnana um hálft prósentustig, úr 9,5% í 9% (það sem Seðlabankinn kallar nú hina raunverulegu stýrivexti) liggur beinast við að spyrja seðlabankastjóra hvort lækkunarferlið sem svo margir eru búnir að vera að bíða eftir sé hafið eða jafnvel langt á veg komið.

„Ég held að lækkunarferlið hafi reyndar hafist snemma s.l. vor,“ segir Már Guðmundsson, seðlabankastjóri í viðtali við Viðskiptablaðið.

„Í upphafi ársins voru stýrivextir 18% og þá voru það virkir stýrivextir. Síðan þá hafa vextir lækkað nokkuð hratt og til viðbótar verða hér ákveðnar kerfisbreytingar sem valda því að það sem áður hétu stýrivextir hætta í raun að bíta af því að bankakerfið er yfirfullt af fé og lítið að lána út. Þannig verða innstæðuvextirnir hinir raunverulegu stýrivextir. En vaxtalækkunarferlið er löngu hafið.“

Eru menn þá bara hættir að tala um stýrivexti sem stýrivexti?

„Já, af því að þeir stýra engu. Þeir stýrðu einhverju hér áður fyrr en stýra engu núna,“ segir Már.

„Það sem skiptir máli varðandi aðhald peningastefnunnar er það hvernig peningastefnan hefur áhrif á þá vexti sem menn eru að stunda viðskipti með, s.s. vexti á millibankamarkaði, vexti á ríkisvíxlum o.s.frv. Þar er ekki um að ræða viðskipti á þeim vöxtum sem nú standa í 11%. Með ákvörðun okkar í síðustu viku vorum við að aðlaga vaxtaganginn að þessum nýja raunveruleika. Það sem við gjarnan viljum er að skammtímavextir á markaði séu inni í okkar vaxtagangi, en ekki fyrir utan, því þá erum við að stýra einhverju. Með útgáfu innstæðubréfa hefur þetta tekist.“

Aðspurður um hvort þessir innlánavextir fari lækkandi á næstunni segir Már að það eigi eftir að koma í ljós hvert framhaldið verður. Hins vegar skapist forsenda fyrir frekari lækkun ef krónan styrkist og verðbólgan hjaðnar, líkt og Seðlabankinn hefur spáð fyrir um.

_____________________________

Nánar er rætt við Má í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu . Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .