Már Guðmundsson seðlabankastjóri ræddi við fréttastofu Ríkisútvarpsins í kvöldfréttum um Samherjamálið.

„Það er enginn illvilji á bakvið þetta hjá okkur, þvert á móti. Svona persónulega hef ég alla tíð haft mikið álit á Þorsteini Má og Samherja og svo framvegis, og það var nú mér mikið áfall þegar kom í ljós að svo virtist vera að þarna hefði verið brot á gjaldeyrislögum,“ segir seðlabankastjóri í samtali við Ríkisútvarpið.

Í samtalinu segist Már vera hissa á Þorsteini Má og segir að ekki megi persónugera mál. Stór fyrirtæki geti stundum rekist utan í opinbert regluverk. „Kannski ekkert endilega með einhvern einbeittan brotavilja.“

Már segir að þegar viðskipti eða regluverk verði flókið geti menn stundum dottið vitlausu megin við línuna, þó að það hafi kannski ekki verið meiningin.

Már segist hafa látið kanna hvort einhver leið væri til að ljúka Samherjamálinu með sátt en lögfræðingar bankans hafi komist að því að slíkt væri lögbrot.

„Ef það er grunur um meiriháttar brot þá ber okkur, ekki bara megum, heldur ber, það er á okkur sú lagaskylda að kæra það þá til saksóknara sem er lögregluyfirvald,“ segir Már í samtalinu við Ríkisútvarpið.