Ákveðið hefur verið að loka starfsstöð Marel á Ísafirði frá 1. september næstkomndi, segir í fréttatilkynningu, og mun Marel ræða við starfsfólkið þar um mögulegan áhuga þess á starfi í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Garðabæ.

"Stjórnendum Marel þykir leitt að þurfa að hætta rekstri vestra, en rekstrarlegar ástæður krefjast aukinnar samþættingar í alþjóðlegu starfsumhverfi fyrirtækisins," segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Framleiðslueiningin á Ísafirði var upphaflega fyrirtækið Póls, sem Marel keypti árið 2004, en það hafði þá glímt við taprekstur um skeið

Aðgerðin er liður í endurskipulagningu á heildarstarfsemi fyrirtækisins um allan heim, segir Marel. Flutningurinn frá Ísafirði til Garðabæjar er liður í endurskipulagningunni og ákvörðunin er alfarið byggð á rekstrarlegum forsendum. Á Ísafirði hefur undanfarin ár verið lögð áhersla á framleiðslu og sölu hraðpökkunartækja, sem þróuð eru þar. Um langt árabil hafa auk þess verið framleiddar skipavogir vestra.


Í kjölfar kaupa Marel á fyrirtækjunum AEW Delford Systems í Bretlandi og Scanvægt International í Danmörku á síðasta ári hefur verið unnið að samþættingu rekstrareininga fyrirtækisins um allan heim. Það er afar mikilvægt fyrir alþjóðlegt fyrirtæki eins og Marel að fækka og stækka sölu-, þróunar- og framleiðslueiningar sínar á rekstrarlegum forsendum. Vegna þessa er einingin á Ísafirði orðin of lítil og óhagstæð, segir í tilkynningunni.

Eftir að Marel festi kaup á Scanvægt í Danmörku og AEW Delford í Bretlandi hófst samþætting og straumlínulögun heildarinnar. Marel hefur nú um 45 starfsstöðvar í yfir 20 löndum. Um 2.200 starfsmenn starfa hjá fyrirtækinu, þar af 350 á Íslandi. Meðal aðgerða sem nú þegar er unnið að er sameining fyrirtækja í Bandaríkjunum, Bretlandi, löndum Suður-Ameríku og víðar.

Starfsstöðvum verður fækkað um 15 til 20 og stærri og hagkvæmari rekstrareiningar verða til. Þetta er gert til að auka hagræðingu, arðsemi og styrkja samkeppnistöðu fyrirtækisins. Marel hefur einnig hafið framleiðslu á íhlutum og vörum í Slóvakíu sem nýtast mun öllum einingum samstæðunnar. Ákveðið hefur verið að nýta betur framleiðslugetu Marel í Garðabæ og í Slóvakíu og þar af leiðandi verður framleiðslu á Ísafirði hætt.