Framleiðslustarfsemi Marel í Bornholm, Danmörku verður sameinuð starfseiningu félagsins í Aarhus, Danmörku. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu til Kauphallarinnar.

Framleiðslustarfsemi Marel í Bornholm sem nær yfir þróun og framleiðslu á háþróuðum hlutunarlausnum (e. portioning) fyrir fisk-, kjúklinga- og kjötiðnað verður flutt til Aarhus sem er miðstöð Marel fyrir lausnir á sviði pökkunar og þjarka (e. fixed weight packaging and robotics)

„Flutningurinn mun verða til þess að starfsemi félagsins í hlutunarlausnum verður sameinuð undir einu þaki sem mun styðja þessa starfsemi innan félagsins og styrkja samkeppnis- og markaðsstöðu félagsins á þessu sviði. Rekstrarniðurstaða þessarar starfsemi hefur verið góð og mun flutningurinn gera félaginu kleift að auka skilvirkni og vera betur í stakk búið fyrir frekari framgang og vöxt á þessu sviði,“ segir í tilkynningunni.

Flutningar á framleiðslustarfsemi frá Bornholm til Aarhus munu hefjast í mars 2015 og verður aðgerðinni að fullu lokið fyrir árslok 2015. Aðgerðin nær til um það bil 40 starfsmanna og kveðst fyrirtækið munu styðja við þá starfsmenn sem aðgerðirnar hafa áhrif á þar sem þeim verður meðal annars boðið að flytja til Aarhus.