Marel hefur tilkynnt um breytingar sem leiða eiga til frekari einföldunar og hagræðingar í rekstri fyrirtækisins. Aðgerðirnar munu hafa í för með sér fækkun starfsmanna sem nemur 150 stöðugildum. Þá verður vöruframboð fyrirtækisins minnkað og á þeim grundvelli mun fyrirtækið hætta framleiðslu á frystum í Singapúr. Undirbúningur þess er þegar hafinn og er búist við að framleiðslueiningunni þar verði að fullu lokað um mitt þetta ár.

Framleiðslustarfsemi Marel í Des Moines í Iowafylki Bandaríkjanna verður sameinuð starfseiningu fyrirtækisins í Gainesville í Georgíufylki. Sá flutningur mun hefjast í þessum mánuði og er stefnt á að honum verði lokið í lok þessa árs. Því til viðbótar tilkynnir Marel nú um fjárfestingu í nýrri nýsköpunarmiðstöð í Des Moines sem sinnir einkum lausnum fyrir kjötiðnað og fyrir frekari vinnslu matvæla.  Nýja nýsköpunarmiðstöðin mun leysa af hólmi núverandi starfsstöð og stefnt er að sölu á landi og byggingum þar á móti nýrri fjárfestingu.

Styðja við starfsmenn

Sem áður sagði hafa aðgerðirnar í för með sér fækkun starfsmanna sem nemur 150 stöðugildum. Í tilkynningu frá Marel segir að fyrirtækið muni í gegnum allt ferlið styðja við þá starfsmenn sem aðgerðirnar hafa áhrif á.

Í kjölfar þessara breytinga mun starfsemi Marel í Bandaríkjunum samanstanda af: framleiðslueiningu í Gainesville, framleiðslueiningu í Seattle, Washington, sölu- og þjónustumiðstöð í Lenexa, Kansas og að lokum nýsköpunarmiðstöð í Des Moines. Allar fjórar einingarnar munu halda áfram sölu- og þjónustustarfsemi. Eftir breytingarnar verða starfsmenn Marel í Bandaríkjunum um 600 og munu þeir  þjónusta Bandaríkjamarkað sem er í örum vexti um þessar mundir.