*

laugardagur, 25. september 2021
Innlent 29. janúar 2021 12:06

Marel kaupir 40% hlut í Stranda Prolog

Með kaupum og samstarfi við norskt fyrirtæki færist Marel nær því að bjóða heildarlausnir fyrir laxaiðnað.

Ritstjórn
Framkvæmdastjóri fiskiðnaðar hjá Marel, Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, að neðan, segir að með samstarfinu við Stranda Prolog séu fyrirtækin í betri stöðu til að umbylta laxaiðnaðinum.
Aðsend mynd

Marel hefur lokið kaupum á 40% hlut í Stranda Prolog, norskum framleiðanda hátæknilausna fyrir laxaiðnað. Þá hafa Marel og Stranda Prolog gert með sér samkomulag um stefnumótandi samstarf.

Stranda Prolog var stofnað sem fjölskyldufyrirtæki árið 1946 og er sagt í tilkynninu vera í dag í fararbroddi í þróun hátæknilausna fyrir laxaiðnað auk þess sem félagið framleiðir lausnir fyrir fiskeldi. Stranda Prolog er með 25 milljónir evra í árstekjur og 100 starfsmenn sem eru staðsettir í Kristiansund í Noregi.

Skrefi nær heildarlausn fyrir laxaiðnað

Kaupin eru í samræmi við stefnu Marel um að bjóða upp á heildarlausnir, hugbúnað og þjónustu fyrir kjúklinga-, kjöt-, og fiskvinnslu á heimsvísu. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á dögunum keypti Marel félag sem framleiðir búnað til gæsa- og andaiðnaðar einmitt til að geta boðið heildarlausn fyrir framleiðendur þar.

Vöruframboð Stranda Prolog fyrir frumvinnslu laxaiðnaðar auk lausna sem notaðar eru í fiskeldi eru sagðar í tilkynningu falla vel saman við vöruframboð Marel og færa félagið nær því að geta boðið viðskiptavinum sínum upp á heildarlausnir sem ná yfir allt vinnsluferlið í laxaiðnaði.

Samstarf byggt á sterkum grunni

Marel og Stranda Prolog hafa lengi unnið saman að heildarlausnum fyrir marga af framsæknustu laxaframleiðendum í heimi þar sem hugbúnaðurinn Innova hefur tryggt samfellt flæði milli allra stiga vinnsluferilsins.

Saman verði Marel og Stranda Prolog nú í betri stöðu til að þjóna stærri hóp viðskiptavina í gegnum alþjóðlegt sölu- og þjónustunet Marel. Í gegnum stefnumótandi samstarf munu félögin efna til samvinnu á sviði sölu og nýsköpunar með það að markmiði að þróa hátæknilausnir fyrir laxaiðnaðinn á heimsvísu.

Kaupin skiptast í tvo hluta. Annars vegar kaup á útistandandi hlutum og hins vegar hlutafjárhækkun sem verður nýtt til að styðja við frekari vöxt Stranda Prolog með nýsköpun og þróun nýrra lausna.

„Við erum mjög spennt að taka höndum saman með Stranda Prolog, framleiðanda hátæknilausna fyrir frumvinnslu í laxaiðnaði. Sterk markaðsstaða Stranda Prolog er til vitnis um yfirburðaþekkingu félagsins á hráefnisvinnslu og gæði vinnslulausna þeirra,“ segir Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri fiskiðnaðar hjá Marel.

„Á undanförnum árum hafa Marel og Stranda Prolog náð frábærum árangri með því að vinna saman að heildarlausnum fyrir marga af framsæknustu fiskframleiðendum í heimi. Með því að hefja formlegt samstarf erum við í betri stöðu til að umbylta laxaiðnaðinum, stuðla að samfelldu flæði og nýtingu gagna í gegnum allt vinnsluferlið.

Þannig tryggjum við framboð öruggra gæðamatvæla til neytenda um allan heim. Ég er mjög ánægð með að hefja samstarf með félagi sem deilir gildum og framtíðarsýn Marel og ég hlakka til þeirrar samvinnu sem er framundan.“

Klaus Hoseth, forstjóri Stranda Prolog býður Marel velkomið í hóp hluthafa félagsins með stolti og virðingu.

„Við erum einnig stolt að hefja nú formlegt samstarf við Marel, sem býr yfir alþjóðlegu sölu- og þjónustuneti auk stafrænna lausna, og deilir með okkur þeirri sýn að þróa hátæknilausnir fyrir stækkandi hóp viðskiptavina okkar í fiskiðnaði um allan heim,“ segir Klaus Hoseth.

„Viðskiptavinir okkar munu halda áfram að þekkja okkur sem Stranda Prolog en nýir viðskiptavinir á nýjum mörkuðum munu þekkja okkur sem samstarfsaðila Marel. Saman munum við halda áfram á þeirri vegferð að stuðla að aukinni virðisaukningu fyrir viðskiptavini okkar með hágæða vinnslulausnum og leggja áfram áherslu á sjálfbærni og  velferð í fiskeldi.

Þetta skref er viðurkenning á vinnuframlagi og árangri starfsfólks okkar, fjölskyldna þeirra og samfélagsins í Kristiansund. Traustur grunnur hefur nú verið lagður fyrir frekari vöxt og verðmætasköpun. Við þekkjum Marel vel og vitum að Marel þekkir iðnaðinn og okkar starfsemi. Ég er spenntur að hefja samstarf með félögum úr iðnaðinum sem eru vinir mínir til margra ára.”