Heildarviðskipti með hlutabréf í síðustu viku námu 347 milljónum króna og var Marel með 99% af veltunni. Gengi félagsins endaði í 100 og stóð í stað á milli vikna. OMXI6ISK vísitalan hækkaði um 1,72%. Mest hækkuðu bréf í Icelandair og nam hækkunin 5,88%.

Þetta kemur fram í vikulegum markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa. Segir að bréf í Össuri hafi lækkað mest, eða um 3,26% í lítilli veltu. „Gengi félagsins endaði ríflega 5% hærra í kauphöllinni á Íslandi en í kauphöllinni í Kaupmannahöfn.

Engin viðskiptavakt er lengur með hlutabréf félagsins á innlenda markaðnum eftir að Össur óskaði eftir afskráningu úr kauphöll Íslands þann 15.nóvember síðastliðin.

Stjórn Icelandair Group sendi frá sér afkomuviðvörun í síðustu viku þar sem EBITDA spá ársins var hækkuð úr 10,5 milljörðum króna í 11,5 milljarða.

Þá var tilkynnt að hlutir í Icelandair væru nú komnir í 3.941.000.000 að nafnverði.  Félagið á 0,65% hluti í sjálfum sér og þeim hlutum fylgir ekki atkvæðisréttur.

Marel sendi frá sér tilkynningu vegna breytingar á hlutafé í kjölfar aukningar upp á 3.154.750 hluti.  Aukningin er tilkomin vegna kaupréttasamninga við starfsmenn.

Í dag nema útgefnir hlutir í Marel því 730.291.247 að nafnverði og á félagið 37.500 hluti í sjálfu sér, þeim hlutum fylgir ekki atkvæðisréttur.

Þá var birtur listi yfir 20 stærstu hluthafa Marels, 3 stærstu hluthafarnir eiga yfir 61% í félaginu.  Þetta eru Eyrir með 31,89%, Horn fjárfestingarfélag ehf með 20,68% og Grundvig Invest A/S með 8,45% hlut,“ segir í markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa um félög í Kauphöllinni.