Gengi Marel hækkaði um 1,57% í 1.048 milljóna króna viðskiptum dagsins, sem var þriðja mesta hækkun bréfa í einu félagi á hlutabréfamarkaði í dag, og náði þar með lokagengi bréfa félagsins nýjum sögulegum hæðum eða 750 krónum í kjölfar uppgjörs félagsins í gær.

Mest hækkun var hins vegar á bréfum Eimskipafélags Íslands, eða um 8,66%, í kjölfar uppgjörstilkynningar félagsins og endurnýjaðs yfirtökutilboðs stærsta eigandans Samherja.

Síðasti hápunktur í gengi bréfa Marel var 746 krónur þann 27. júlí, en bréf félagsins fóru lægst á árinu í 477 krónur þann 17. mars þegar fyrsta bylgja heimsfaraldurs kórónuveirufaraldursins stóð sem hæst.

Viðskiptin með Marel voru langmestu viðskiptin á hlutabréfamarkaði kauphallarinnar í dag með bréf í einu félagi, en hækkun bréfanna var sú þriðja mesta. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í gær dróst hagnaður félagsins saman um 12% milli ára á þriðja ársfjórðungi.

Heildarviðskiptin á hlutabréfamarkaði námu 3,7 milljörðum króna, og hækkaði Úrvalsvísitalan um 1,43%, í 2.279,39 stig, sem einnig eru hæsta gildi sem vísitalan hefur tekið.

Næst mestu viðskiptin voru með bréf Eimskipafélags Íslands, eða um 587,2 milljónir króna, en eins og áður segir var hækkun gengis bréfa félagsins sú langsamlega mesta í viðskiptum dagsins, eða um 8,66%, upp í 182 krónur.

Þriðju mestu viðskiptin voru svo með bréf Kviku banka eða fyrir 286,7 milljónir króna, en bankinn var eitt þriggja fyrirtækja sem lækkaði í verði í kauphöllinni í dag, eða um 0,16% sem var minnsta lækkunin, og fór gengi bréfa bankans í 12,16 krónur.

Næst mest hækkun var á gengi bréfa Sýnar, um 1,77%, upp í 34,50 krónur, í 166 milljóna króna viðskiptum. Mesta lækkunin var á bréfum Brim, eða um 0,88%, niður í 44,80 krónur í litlum 10 milljóna króna viðskiptum, en næst mesta lækkunin var á bréfum Iceland Seafood, eða um 0,22%, í 28 milljóna króna viðskiptum en lokagengi félagsins var þá 9,18 krónur.

Gengi krónunnar veiktist gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum nema Bandaríkjadal, en dalurinn styrktist gagnvart krónu um 0,25% og fæst hann nú á 137,80 krónur. Evran styrktist um 0,12% gagnvart krónu og fæst nú á 163,66 krónur, breska pundið styrktist um 0,51%, og fæst á 181,46 krónur og japanska jenið styrktist um 0,82% og kostar nú 1,3189 krónur.