*

laugardagur, 4. desember 2021
Innlent 24. september 2020 12:30

Eimskip í kastljósi Kveiks

Skipafélagið ásakað og sagt eiga að draga það til ábyrgðar í sjónvarpsþætti RÚV í kvöld vegna niðurrifs flutningaskipa.

Ritstjórn
Hið 25 ára gamla skip Goðafoss var annað þeirra sem hafa farið í niðurrif í skipakirkjugarðinum í Alang á Indlandi.
Gunnhildur Lind Photography

Í sjónvarpsþættinum Kveik á RÚV í kvöld hyggst þátturinn fjalla um hvað verður um flutningaskip eftir að þau hafa siglt sína síðustu ferð um heimshöfin en eins og Viðskiptablaðið tók saman í síðustu viku hefur BBC fjallað ítarlega um skipakirkjugarðana í Alang á Indlandi og ásakanir um slæman aðbúnað verkafólks þar og brot á alþjóðasamþykktum um meðferð spilliefna um borð.

Umfjöllun Kveiks virðist höggva í sömu knérunn, en í yfirskrift kynningarmyndbands um komandi þátt segir að fjallað verði um hvernig Eimskipafélag Íslands hafi losað sig við tvö af stærstu gámaskipum landsins, Laxfoss og Goðafoss, með umdeildum hætti.

Í myndbrotinu sem fylgir koma fram ummæli þriggja erlendra viðmælenda sem ekki eru kynntir til sögunnar sem segja:

„Þeir gerðu þetta bara fyrir peningana, ég held það sé eina ástæðan“ – karlkyns viðmælandi
„Íslensk yfirvöld ættu að draga Eimskip til ábyrgðar og sækja það til saka“ – kvenkyns viðmælandi
„Að minnsta kosti 137 manns hafa látist við skipaniðurrif í Alang undanfarinn áratug“ – karlkyns viðmælandi

Eimskip svaraði fyrirspurn RÚV um hvað yrði um Goðafoss og Lagarfoss nú þegar þau hafa verið tekin úr rekstri hjá félaginu með tilkynningu í síðustu viku, en þar segir félagið það ekki hafa verið ákvörðun þess að senda skipin í niðurrif heldur félagsins GMS sem keypti skipin árið 2019.

Jafnframt er tekið sérstaklega fram að fyrirtækin tvö í Alang sem hafi keypt skipin til niðurrifs af GMS fylgi alþjóðlega Hong Kong sáttmálanum um örugga og umhverfisvæna endurvinnslu skipa í sínum brotajárnsstöðvum.

Grein Viðskiptablaðsins um málið í síðustu viku bar yfirskriftina Þekktur milliliður keypti skip Eimskip, en þar er vísað í það að GMS, sem er stærsti kaupandi í heimi á notuðum skipum, er sakað um að vera milliliður til að fría skipafélögin ábyrgð á því að skipin endi í niðurrifi þar sem reglum heimalanda þeirra um meðferð spilliefna og aðra meðferð umhverfis og starfsmanna er ekki fylgt.

GMS hafnar því hins vegar að ætla sér að komast hjá alþjóðasamningum með því að flytja skip til niðurrifs til Alang, og lýsti fyrirtækið ásökunum BBC sem æsifréttamennsku sem sé fyrst og fremst ætlað að þjóna eigin hagsmunum vel fjármagnaðra einstaklinga og hópa sem beri ábyrgð á því að setja fram skakka mynd af sannleikanum.