Marel skilaði 12,6 milljóna evra hagnaði á fyrsta fjórðungi þessa árs, sem samsvarar um 1.860 milljónum íslenskra króna. Á sama tíma í fyra var 1,9 milljóna evra tap á rekstri félagsins.

Tekjur á fyrsta ársfjórðungi 2015 námu 209,3 milljónum evra, samanborið við 154,8 milljónir evra á sama tímabili í fyrra. EBITDA var 29,4 milljónir evra á fyrsta fjórðungi þessa árs, samanborið við 8,1 milljón evra í fyrra. Leiðrétt EBITDA jókst úr 11,6 milljónum evra í 36,9 milljónir á milli ára.

Handbært fé frá rekstri fyrir fjármagnsliði og skatta nam 39,5 milljónum evra á fyrsta ársfjórðungi 2015, samanborið við 19,4 milljónir evra í fyrra. Nettó vaxtaberandi skuldir í lok fjórðungsins námu lækkuðu úr 208,4 milljónum evra í 161,7 milljónir evra á milli ára.

Í tilkynningu til kauphallarinnar segir að pantanabókin hafi staðið í 178 milljónum evra í lok fyrsta ársfjórðungs samanborið við 174,9 milljónir evra í lok árs 2014.

Í tilkynningunni er haft eftir Árna Oddi Þórðarsyni, forstjóra Marels, að með markvissri markaðssókn og sterku vöruframboði hafi tekist að nýt þann meðbyr sem nú ríki á mörkuðum. „Gott jafnvægi er á milli uppbyggingarverkefna fyrir viðskiptavini (e. Greenfield) og endurnýjunarverkefna og vöxtur er í þjónustutekjum. Við höfum fjárfest vel í nýsköpun og við kynnum stöðugt til sögunnar nýjar og spennandi lausnir sem gera kjúklinga-, kjöt- og fiskframleiðendum kleift að draga úr sóun og minnka notkun á vatni og rafmagni sem gerir framleiðslu matvæla sjálfbærari til framtíðar,“ segir hann.