Tekjur Marel verða í samræmi við væntingar með fráviki i EBIT-framlegð, að því er fram kemur á bráðabirgðaútreikningum fyrirtækisins. Áætlað er að tekjur fjórða ársfjórðungs 2013 muni nema 168 milljónum evra, jafnvirði rúmra 19 milljarða íslenskra króna, og að EBIT framlegð nemi 4,4%.

Fram kemur í tilkynningu frá Marel að frávik í áætlaðri  EBIT framlegð félagsins í ársfjórðungnum sé að mestu tilkomið vegna kostnaðar tengdum stjórnendabreytingum, hagræðingar í birgðastýringu og niðurfærslu á birgðum.

Marel hf. mun birta ársreikning sinn fyrir árið 2013 eftir lokun markaðar þann 5. febrúar 2014.  Þann 6. febrúar verður kynningarfundur með markaðsaðilum og fjárfestum þar sem rekstrarniðurstaða félagsins verður kynnt . Á fundinum verður einnig gerð grein fyrir framtíðarhorfum félagsins og næstu skrefum varðandi aðlögun framkvæmdar á stefnu félagsins í átt að framtíðarmarkmiðum þess, að því er segir í tikynningu.