Marel hefur verið valið menntafyrirtæki ársins 2015, en þetta kemur fram á vef Samtaka atvinnulífsins . Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra afhenti verðlaunin á menntadegi atvinnulífsins 2015 sem haldinn var á Hilton Reykjavík Nordica.

„Marel er í fararbroddi þegar kemur að menntun og starfsþróun starfsmanna. Lögð er áhersla á markvissa þjálfun og símenntun fyrir alla starfsmenn fyrirtækisins. Marel tekur þátt í víðtæku samstarfi við menntastofnanir bæði hérlendis og erlendis og stuðlað er að nýsköpun í menntun starfsmanna. Dæmi um slíkt er Framleiðsluskóli Marel fyrir ófaglært starfsfólk en 30% þeirra sem vinna við framleiðslu hjá Marel á Íslandi hafa ekki lokið formlegu viðurkenndu námi,“ segir í frétt á vef SA.

Sigríður Þrúður Stefánsdóttir mannauðsstjóri Marel í Garðabæ tók við verðlaununum, en hún segir þau mikilvæga viðurkenningu fyrir Marel.

„Ég er sannfærð um að menntaverðlaun atvinnulífsins munu vera bæði stjórnendum og starfsmönnum Marel mikil hvatning og gefa okkur byr undir báða vængi til að efla enn frekar fræðslu og símenntun og uppbyggingu Marel sem fyrirmyndar og - spennandi valkosts fyrir ungt fólk á íslenskum vinnumarkaði. Þó Marel sé tæknifyrirtæki og framleiði tæki og lausnir til matvælavinnslu þá er það starfsfólkið, sem er okkar helsti auður,“ sagði Sigríður.

Síldarvinnslan valin menntasproti ársins

Þá var Síldarvinnslan valin menntasproti ársins. „Árið 2013 stofnaði Síldarvinnslan Sjávarútvegsskóla þar sem 14 ára grunnskólanemum var gefinn kostur á að fræðast um fiskveiðar og -vinnslu yfir sumartímann á launum. Ástæðan var sú að kynslóð ungmenna var að alast upp á Neskaupstað án þess að fá nægilega fræðslu um sjávarútveg og mikilvægi hans og úr því vildi Síldarvinnslan bæta,“ segir meðal annars í frétt á vef SA.

Dómnefnd var skipuð Hildi Elínu Vignir framkvæmdastjóra hjá Iðunni, Steini Loga Björnssyni forstjóra, Ingibjörgu Elsu Guðmundsdóttur framkvæmdastjóra Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og Þorsteini Sigfússyni framkvæmdastjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.