*

miðvikudagur, 22. janúar 2020
Innlent 6. mars 2019 18:33

Marel verður skráð í Amsterdam

Aðalfundur Marel ákvað að velja kauphöllina í Holland fyrir tvískráningu félagsins umfram Danmörku.

Ritstjórn
Árni Oddur Þórðarson forstjóri Marel var í viðtali við sérblað Viðskiptablaðsins, Áramót, þar sem hann ræddi meðal annars um tvíhliða skráningu félagsins í erlenda kauphöll.
Haraldur Guðjónsson

Stefnt er að skráningu Marel í kauphöllina Euronext í Amsterdam í Hollandi innan níu mánaða. Var þetta upplýst á aðalfundi Marel síðdegis. Um tvíhliðaskráningu verður að ræða því  bréfin verða einnig áfram skráð í Kauphöll Íslands.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í byrjun febrúar stóð valið þá á milli Amsterdam og Kaupmannahafnar í Danmörku, en áður hafði London í Bretlandi einnig verið skoðað sem valkostur.

Félagið hefur hækkað mikið í viðskiptum síðustu misseri, en hækkunin á þessu ári nemur 36% og er markaðsvirði félagsins nú um 344,7 milljarða íslenskra króna.

Félagið hefur keypt upp eigin bréf undanfarið í aðdraganda skráningarinnar sem Árni Oddur Þórðarson kallaði næsta skref í þroskasögu félagsins í viðtali í Áramótum, sérblaði Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar.

Nánar verður fjallað um uppgang Marel í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af Viðskiptablaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.