Fréttir af húsnæðismarkaði það sem af er ári hafa ekki verið uppörvandi og eftir mikla kólnun á markaðinum í vetur og vor hefur  verulega dregið úr áhuga fjárfesta á uppbyggingu íbúða. Það má kalla síðustu mælingu Gallup á kaupáhuga landans á húsnæði stórtíðindi því samkvæmt henni hefur áhuginn ekki mælst meiri í könnun Gallup síðan 2007.

Mæling á áhuga á húsnæðiskaupum er ein af undirvísitölum svokallaðar stórkaupavísitölu sem Gallup mælir ársfjórðungslega. Greiningardeild Íslandsbanka fjallar um síðustu mælingu stórkaupavísitölunni í dag og greinir frá því að hún hafi hækkað um 1 stig á milli fjórðunga sé jafnframt tveimur stigum hærri nú en á sama tíma í fyrra.

Undirvísitalan um fyrirhuguð húsnæðiskaup mældist nú ríflega 14 stig og hækkaði um 4 stig frá fjórðungnum á undan en á sama tímabili í fyrra mældist áhuginn tæp níu stig. Alls hyggja 8% svarenda á húsnæðiskaup á næstunni og segir greiningardeildin að áhuginn hafi ekki mælst meiri síðan árið 2007.