Flestir greiningaraðilar gera ráð fyrir því að Peningastefnunefnd Seðlabankans hækki stýrivexti um 0,25% á vaxtaákvörðunardegi sínum á morgun. Gangi það eftir fara stýrivextir í 5,75%. IFS Greining spáði því sömuleiðis í gær að stýrivextir muni hækka um 0,25%.

Greiningardeild Arion banka segir það freistandi að halda vöxtum óbreyttum, ekki síst vegna hagfelldari verðbólgumælingar í síðasta mánuði en markaðsaðilar (og Seðlabankinn sjálfur) bjuggust við, lítilsháttar styrkingar krónunnar og lækkandi hrávöruverðs á heimsmörkuðum. Deildin segir hins vegar að þrátt fyrir þetta vegi rök með vaxtahækkun mun þyngra.

Deildin bendir á að þegar peningastefnunefndin hækkaði vexti um 0,5% í maí hafi hækkun upp á allt að 1,0% verið til umræðu enda einhugur í nefndinni um að nauðsynlegt sé að draga úr slaka peningastefnunnar samhliða minnkandi slaka í þjóðarbúskapnum.

„Sterkar tölur úr nýjasta uppgjöri þjóðhagsreikninga fyrir fyrsta fjórðung ársins (2,4% aukning landsframleiðslu milli ársfjórðunga) munu tvímælalaust hafa þau áhrif að ýta nefndinni yfir þröskuldinn úr óbreyttum vöxtum yfir í frekari hækkun, en ef ekki væri fyrir daprar horfur á erlendum mörkuðum mætti ef til vill færa rök fyrir 50 punkta hækkun,“ segir greiningardeild Arion banka.

Spá 6,5% stýrivöxtum á næsta ári

Í svipaðan streng tekur Greining Íslandsbanka sem bendir á að hagvaxtartölurnar geti verið vatn á myllu þeirra innan Peningastefnunefndarinnar sem vilji hækka stýrivexti.

Greiningin býst við að stýrivextir verði semsagt hækkaðir um 0,25% nú og aftur í ágúst þar sem verðbólga verður þrálát þótt dragi úr henni í ágúst. Deildin gerir ráð fyrir að á næsta ári verði peningastefnan aðhaldssöm og gerir hún ráð fyrir að stýrivextir verði komnir í að meðaltali 6,5% á næsta ári.