Í slenskur vísindamaður hefur verið lykilmaður í Lytix Biopharma, norsku lyfja- og líftæknifélagi, sem hefur síðustu ár unnið að rannsókn og þróun á nýju krabbameinslyfi. Lytix fékk nýverið leyfi bandaríska lyfjaeftirlitsins (FDA) til að hefja svokallaðar fasa II prófanir á krabbameinslyfinu LTX-315. Munu rannsóknirnar fara fram á meðferðarsjúkrahúsi í Bandaríkjunum sem er leiðandi í slíkum rannsóknum á heimsvísu. Félagið stefnir af þeim sökum á skráningu á markað í heimalandinu.

„Hér er á ferð næsta skref í ferli sem hefur nú þegar spannað rúmlega tvo áratugi,“ segir Baldur Sveinbjørnsson, önnur tveggja driffjaðra í starfsemi Lytix Biopharma hingað til. Auk þess að starfa hjá Lytix hefur Baldur verið prófessor við háskóla í Tromsö frá árinu 2010.

„Það má með sanni segja að það hafi verið röð tilviljana sem leiddi mig niður þennan veg,“ segir Baldur og hlær. Að lokinni menntaskólagöngu í heimabænum Akureyri fluttist hann búferlum til Noregs, það var á níunda áratug síðustu aldar, til að nema í Háskólanum í Tromsö. Upphaflega stóð til að einblína á líffræði sjávar og sjávarútvegsfræði en á öðru ári námsins fangaði líflæknisfræðin huga hans. Í náminu kynntist hann Øystein Rekdal og hafa þeir unnið saman svo að kalla sleitulaust síðan.

„Verkefnið er í raun framhald af námi okkar í Tromsö. Að því loknu unnum við áfram með hugmyndir þaðan og stofnuðum fyrirtækið árið 2003. Í upphafi stefndum við að því að framleiða nýjar tegundir sýklalyfja en við rannsóknir sáum við að efnin höfðu virk áhrif á krabbameinsfrumur. Í raun er þetta því dæmi um að oft veit maður ekki alveg að hverju maður er að leita að fyrr en maður finnur það,“ segir Baldur.

Hefur gefið góð fyrirheit

Vegurinn frá fyrstu rannsóknum til endanlegrar afurðar er hins vegar ekki beinn og breiður. Þvert á móti getur hann oft verið þröngur, með kröppum beygjum og holóttur í ofanálag. Fyrstu tilraunir fara fram í frumurækt í tilraunaglösum, að því búnu er unnt að hefja tilraunir á dýrum og því næst svokallaðar fasa I rannsóknir á fólki. Félagið lauk nýverið þeim fasa en sá fer jafnan fram á einstaklingum, með langt genginn sjúkdóm, sem sýna takmörkuð eða engin viðbrögð við hefðbundnum meðferðum.

Fyrrnefnt LTX-315 er stungulyf sem sprautað er beint í æxli með þeim áhrifum að drep myndast í krabbameinsfrumunum. Við það virkjast ónæmiskerfi líkamans, tekur við boltanum og ræðst gegn æxlinu. Fyrsti fasi miðar að því að komast að því hversu oft má gefa lyfið og í hvað stórum skömmtum hverju sinni. „Niðurstöðurnar þar gáfu góð fyrirheit. Yfirleitt er ónæmiskerfi sjúklinganna nokkuð bælt, eftir langvinna glímu við sjúkdóm, en það vakti athygli okkar að sjá að lyfið sýndi virkni hjá þessum einstaklingum,“ segir Baldur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .