Áhersla á ímynd íþróttamanna hefur aukist töluvert á undanförnum árum. Á þetta sérstaklega við í einstaklingsíþróttum þar sem flestir íþróttamenn þéna stærstan hluta af tekjum sínum vegna auglýsingasamninga við kostunaraðila (e. sponsors). Sem dæmi má nefna að um 90% af tekjum svissneska tenniskappans Roger Federer á síðasta ári komu frá auglýsingasamningum, samkvæmt lista Forbes, þrátt fyrir að hann hafi sigrað á tveimur stórmótum á árinu. Það eru þó ekki bara einstaklingsíþróttamenn sem þéna vel. Þrír af bestu leikmönnum NBA-deildarinnar í körfubolta, þeir LeBron James, Kevin Durant og Stephen Curry, sóttu allir meirihluta tekna sinna frá styrktaraðilum á síðasta ári.

Með tilkomu samfélagsmiðla eru það hins vegar ekki bara bestu og þekktustu íþróttamenn heims sem þéna vel á auglýsingatekjum. Íslenska markaðsfyrirtækið og umboðsskrifstofan Bakland hefur á undanförnum árum aðstoðað íslenska íþróttamenn við að sinna sínum ímyndarmálum og markaðssetningu. Fyrirtækið vinnur náið með íþróttamönnum á borð við Crossfit-fólkið Söru Sigmundsdóttur og Björgvin Karl Guðmundsson, bardagafólkið Gunnar Nelson og Sunnu Rannveigu Davíðsdóttur og „bandaríska“ knattspyrnumanninn Aron Jóhannsson. Þá hefur fyrirtækið einnig tekið að sér verkefni fyrir Aron Einar Gunnarsson, Rúrik Gíslason og Hafþór Júlíus Björnsson svo fáeinir séu nefndir.

„Ætli þetta hafi ekki byrjað fyrir mörgum árum síðan. Ég hef alltaf verið í slagtogi við áhrifavalda og áhugavert fólk og ég er búinn að vera samhliða auglýsingagerð mjög lengi, þ.e. að hjálpa fólki við að vinna í þeirra ímyndarmálum. Þetta skref var hins vegar stigið almennilega fyrir tveimur árum síðan,“ segir Snorri Barón Jónsson, stofnandi Baklands. „Hugmyndin mótast út frá því að við sjáum mjög áhugaverða manneskju sem áttar sig ekki endilega á því hversu áhugaverð hún er.

Kveikjan hjá mér er bara einhver aðili sem er framúrskarandi í sinni íþrótt en veit ekki almennilega hvernig á að láta fólk vita af sér eða gerir sér ekki grein fyrir möguleikunum sínum og tækifærum. Við erum fyrirtækið sem kemur þarna inn og hjálpum viðkomandi við að skapa sína ímynd. Við sækjum samninga og sinnum samskiptum við kostunaraðila, sinnum samskiptum við fjölmiðla, framleiðum efni, búum til grafík, útvegum ljósmyndir og byggjum þetta með þeim í samstarfi.“

„Í byrjun ætluðum við ekki að fókusa bara á íþróttir sérstaklega heldur á áhugaverða einstaklinga almennt. Starfsemin þróaðist hins vegar meira og meira yfir í íþróttir og þá sérstaklega einstaklingsíþróttir. Fólk í greinum á borð við MMA, Crossfit, golf og fleiri íþróttir hefur einfaldlega svo mikið við þetta að gera þar sem tekjumódel þessara íþróttamanna kemur að mestu leyti í gegnum kostunaraðila. Það er ánægjuefni að til dæmis Sara Sigmundsdóttir er það vinsæl innan sinnar íþróttar að hún gæti vel lifað á tekjum frá samfélagsmiðlum einum og sér. Ef þú getur byggt upp þína ímynd og verið spennandi kostur fyrir samstarfsog kostunaraðila og fleiri þá getur þetta verið tækið sem gerir það að verkum að þú nærð betri árangri í þinni íþrótt. Markaðsöflin ráða öllu. Auðvitað skipta hæfileikar máli en þegar þú ert kominn á  hæsta stig í íþróttum, hvort sem það er bardagamaður í leit að næsta bardaga eða knattspyrnumaður að reyna að komast í betra lið þá eru svo margir að berjast um að komast að. Það skiptir því máli að að spila vel á öll þau tæki sem íþróttamaðurinn hefur.“

Samfélagsmiðlar breyttu öllu

Snorri segir að starfsemi Baklands væri töluvert öðruvísi ef samfélagsmiðla nyti ekki við. „Bakland var upprunalega hugsað sem markaðsstofa fyrir einstaklinga. Það breyttist hins vegar mikið þegar samfélagsmiðlar komu til sögunnar. Með tilkomu þeirra gjörbreyttist það hvernig einstaklingar geta haft áhrif á tekjusköpun sína, ímynd sína og jafnvel atburðarásina í lífi sínu. Ef þessir miðlar væru ekki til staðar værum við líklega frekar mæli í hlutverki PR-manneskju þar sem við værum að reyna að fá fjölmiðla til að fjalla um viðkomandi einstakling. Með samfélagsmiðlum hafa þessir einstaklingar tækin og tólin til þess sjálfir.“

Heiðarleiki og traust skiptir máli

Spurður hvernig ferlið sé þegar íþróttamaður hefur samstarf við Bakland segir Snorri: „Við byrjum á spjalli þar sem við reynum að kynnast einstaklingnum. Samtalið snýst um að fá raunverulega tilfinningu fyrir því hver viðkomandi er og þá er ég með tilbúna formúlu að því hvaða spurninga ég spyr. Þetta er alltaf fólk að vinna með fólki. Ég og mínir samstarfsmenn verðum að geta átt heiðarleg og opin samskipti sem byggja á trausti svo við getum vitað hvað er raunverulega í gangi í lífi þess einstaklings sem um ræðir. Maður þarf að fara eftir hverjum og einum einstaklingi fyrir sig og finna út hvar liggur línan þeirra í því hvað finnst þeim þægilegt og hversu mikla hlutdeild í sjálfum sér eru þeir tilbúnir að gefa. Síðan er það spurningin hvað er það sem er áhugavert við viðkomandi einstakling.“

Nánar er rætt við Snorra í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .