*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Erlent 5. ágúst 2021 10:57

Markaðsvirðið tvöfaldast á viku

Markaðsvirði Robinhood hefur tvöfaldast frá lokun markaða síðastliðinn fimmtudag og nemur nú um 59 milljörðum dollara.

Ritstjórn
Frá skráningu Robinhood á markað.
epa

Hlutabréfaverð Robinhood hefur tvöfaldast á innan við viku. Gengi bréfanna var í 34,8 dollurum á hlut við lokun markaða síðastliðinn fimmtudag, 29. júlí, en gengi þeirra er nú í 70,4 dollurum á hlut. Wall Street Journal greinir frá.

Markaðsvirði Robinhood, smáforrit fyrir viðskipti hlutabréfa án þóknunar, er nú um 58,8 milljarðar dollara en það var um 29 milljarðar dollara eftir lokun markaða síðastliðinn fimmtudag. 

Félagið fór nokkuð nýstárlega leið í frumútboðinu en það setti töluvert af eigin bréfum til hliðar í útboðinu fyrir eigin notendur í gegnum valréttarsamninga. Afleiðing þess var að almennir fjárfestar áttu stærri hlut í félaginu en almennt gengur og gerist í kjölfar frumútboða. 

Í gær hófust viðskipti með valréttarsamninga notenda forritsins og þá fóru hjólin að snúast af fullum krafti en um 176 milljónir bréfa félagsins skiptust um hendur í gær, sem er það næst mesta á einum degi á ársgrundvelli. 

Lítil innistæða virðist vera fyrir hækkun hlutabréfa félagsins en félagið hefur ekki birt fjárhaldsgögn nýlega og þá hafa engar fréttir borist aðrar en þær að fjárfestingarsjóður Cathie Wood, Ark Invest, hafi fjárfest í bréfunum. Bréfin virðast því eingöngu vera að hækka „af því bara" og því óhætt að flokka bréfin sem svokölluð „jarmhlutabréf". 

Í frumútboði félagsins seldust hlutabréf þess á 38 dollara, eða við lægstu mörk, en verðbil bréfanna í frumútboðinu var 38 til 42 dollarar á hlut. Hlutabréfagengi Robinhood lækkaði um 9% á fyrsta viðskiptadeginum og stóð þá í 34,82 dölum á hlut.   

Stikkorð: Robinhood