„Það er lítið sem ekkert um fjárfestingu sem þessa, en ég hef hitt að máli áhugasama menn og við höfum farið yfir þetta,“ segir Þorbergur Hjalti Jónsson, skógarhagfræðingur hjá Skógrækt ríkisins, í samtali við Fréttablaðið .

Þar er greint frá því að stóraukin tækifæri verði í ræktun iðnviðar hér á landi ef áform ganga eftir um uppbyggingu kísilvera. Þorbergur segir að járnblendiverksmiðjan Elkem á Grundartanga taki t.d. allt sem til falli af grisjunarviði á Íslandi sem notaður sé sem kolefnisgjafi í framleiðslu fyrirtækisins. Til þess að fullnægja núverandi eftirspurn þyrfti 7 til 10 þúsund hektara iðnviðarskóg af alaskaösp.

„Það er því mikil eftirspurn. Kísiliðnaðurinn, sem hillir undir að verði byggður upp hér, breytir síðan myndinni og innflutningur mun stóraukast verði þetta magn ekki ræktað hér,“ segir Þorbergur.