Hlutabréf lækkuðu í Evrópu í dag sem gerir það að verkum að fyrsti ársfjórðungur þessa árs er sá versti í 5 ár eftir því sem Reuters greinir frá. Í byrjun dags lækkuðu markaðir í Evrópu en höfðu um miðjan dag að mestu farið yfir núllið á ný.

FTSEurofirst 300 vísitalan lækkaði um 0,26% í dag og hefur lækkað um 20% frá því í júlí síðastliðnum. Við opnun markaða í morgun lækkaði vísitalan um 1,5% en fór um tíma yfir núllið og hafði um kl. 14 í dag hækkað um 0,3%.

Eins og greint var frá í morgun lækkaði símafyrirtækið Vodafone um 4,7% við opnun markaða eftir að greiningadeild Morgan Stanley sagði fyrirtækið ofmetið á mörkuðum og lækkaði meðmæli sín á fyrirtækinu. Í lok dags höfðu bréf í Vodafone aðeins tekið við sér en félagið lækkaði engu að síður um 4% í dag.

Greiningadeild Morgan Stanley kom víðar við sögu en hún greindi frá því að UBS bankinn þurfi að öllum líkindum að afskrifa allt að 11 milljarða Bandaríkjadala við uppgjör fyrsta ársfjórðungs. Hlutabréf í UBS lækkuðu um 4,8% í dag og hafa lækkað um tæp 50% frá áramótum.

Í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan um 0,16 eftir að hafa lækkað um 1,3% í morgun.

DAX vísitalan í Frankfurt lækkaði um 0,4% en hafði fyrr í morgun lækkað um 1,6% og AEX vísitalan í Amsterdam hækkaði um 0,3% eftir að hafa lækkað um 1% í morgun.

Þá hækkaði CAC 40 vísitalan í París um 0,2% eftir að hafa lækkað um 1,2% í morgun.

Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 0,2% eftir að hafa lækkað um 0,9% í morgun og í Osló hækkaði OBX vísitalan um 0,15% eftir að hafa lækkað um 0,9% í morgun.

Nú í lok fyrsta ársfjórðungs er athyglisvert að skoða þróun markaða í Evrópu.

Í Lundúnum FTSE 100 vísitalan lækkað um 12%, í Frankfurt hefur DAX vísitalan lækkað um 19% og í París hefur CAC 40 vísitalan lækkað um 16%.