Samkvæmt því sem segir í Morgunkorni Glitnis hefur ávöxtun á norrænum hlutabréfamörkuðum verið nokkuð misjöfn í októbermánuði. Markaðirnir í Reykjavík og Osló hafa hækkað mest, eða um 1,7%.

Í samanburði eru markaðirnir í Helsinki og Kaupmannahöfn nokkuð flatir með 0,2% og 0,3% hækkun. Athyglisvert er að markaðurinn í Svíþjóð sker sig nokkuð úr með 4% lækkun í mánuðinum. Þar vegur þungt um 26% verðlækkun á símafyrirtækinu Ericsson þennan mánuðinn.

Af tölunum að dæma hafa norrænir hlutabréfamarkaðir ekki farið varhluta af óstöðugleika í efnahagslífi heimsins undanfarið.