Tvö stærstu félögin á markaðnum og Úrvalsvísitalan sjálf náðu sínum hæstu gildum hingað til innan dags í dag. Úrvalsvísitalan fór í 3.571,7 innan dags en var 3.559,6 við lokun markaðar, KB banki fór hæst í 502,0 innan dags en var 500,0 við lokun. Actavis hefur ennfremur aldrei verið verðmætara og stendur gengi félagsins nú í 50,0.

Viðskipti voru tiltölulega róleg í Kauphöll Íslands í dag, alls 3,2 milljarðar. Mest viðskipti voru með íbúðabréf, 1,7 milljarðar og þá hlutabréf, 1,2 milljarðar. Mest viðskipti voru með hlutabréf KB banka, 326 m.kr., bréfin hækkuðu um 0,2% og var lokagengi bréfanna 500 sem er hæsta lokagengi bréfanna eins og áður sagði. Næst mest viðskipti voru með hlutabréf Landsbankans, 317 m.kr. og lækkaði gengi bréfanna um 0,9%.

Hástökkvari dagsins var Actavis sem hækkaði um 2,7% í 314 m.kr. viðskiptum og var lokagengi bréfanna 50 sem er það hæsta frá upphafi. Mesta lækkun dagsins var í hlutabréfum HB Granda sem lækkuðu um 6,9% í 400 þúsund króna viðskiptum, verðmyndun með bréf félagsins er slök segir í Hálffimm fréttum KB banka og í lok dagsins var munur á hagstæðasta kaup og sölutilboði 6%. Úrvalsvístalan hækkaði í dag um 0,03%.