Það eru bjartir tímar framundan hjá okkur og útlit fyrir að við þurfum að ráða í það minnsta tíu nýja starfsmenn á næstu misserum vegna samnings sem við kláruðum í síðustu viku,“ segir Kristinn Aspelund, sölu- og markaðsstjóri Marorku. Fyrirtækið gerði á dögunum sölusamning við grískt skipafélag, sem er virði nokkur hundruð milljóna króna. „Þetta er góð viðbót við aðra flotasamninga sem við höfum verið að gera að undanförnu.“ Kristinn segir samninginn vera afrakstur tveggja til þriggja ára vinnu. „Við höfum unnið með þessu félagi í langan tíma og það hefur verið ánægt með það sem við höfum að bjóða. Þetta er því mjög ánægjulegur áfangi fyrir fyrirtækið,“ sagði Kristinn. Ekki fæst uppgefið að svo stöddu um hvaða félag er að ræða.

Staða efnahagsmála í Grikklandi er afar slæm í augnablikinu og raunar óvíst hvort ríkissjóður Grikklands lifir af slæma skuldastöðu. Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eru með ríkisfjármál landsins í hálfgerðri gíslingu. Kristinn segir að þessi staða hafi ekki haft áhrif samningaviðræðurnar. „Það eru miklir hagsmunir í húfi fyrir skipafélög að hafa yfirsýn og geta stjórnað olíunotkun sinni. Flutningaskip brenna olíu fyrir allt að 100 þúsund dollara á dag í siglingu.

Það munar því um hvert prósentustig sem tekst að spara í eyðslu á olíu. Umhverfismál og samfélagsleg ábyrgð skipta útgerðir einnig miklu máli í dag. Orkustjórnunarkerfi Marorku og aðferðafræði okkar stuðla að orkusparnaði og þannig má lækka rekstrarkostnað og minnka mengun samtímis,“ segir Kristinn.