Matís opnar á morgun verkefni úr ranni 8. rammaáætlunar Evrópu á sviði rannsókna og þróunar, en áætlunin ber heitið Horizon 2020. Verkefnið snýst um framleiðslu sjávarafurða og hvernig bæta má samkeppnishæfni sjávarútvegsfyrirtækja á alþjóðamarkaði. Því er stjórnað af dr. Guðmundi Stefánssyni, fagstjóra á Matís og er styrkur Horizon 2020 vegna verkefnisins um 750 milljónir króna. Verkefnið er það þriðja á fáum árum sem Matís stjórnar á sviði virðiskeðju sjávarfangs innan Evrópu, að því er segir í frétt á vefsíðu Matís.

Þar segir að samkeppnishæfni margra evrópskra sjávarútvegs- og fiskeldisfyrirtækja hafi átt á brattan að sækja undanfarin ár og vöxtur í sjávarútvegi í álfunni hafi verið takmarkaður. Markmiðið sé greina helstu ástæður og koma með tillögur að úrbótum sem stuðli að aukinni nýsköpun og samkeppnishæfni og hvetja vöxt innan greinarinnar.

Verð og framboð sjávarafurða á evrópskum markaði hefur sveiflast umtalsvert síðastliðin ár, að því er segir í fréttinni, og hefur það grafið undan stöðugleika í rekstri fyrirtækja. „Breytilegt reglugerðaumhverfi hefur áhrif á samkeppnishæfni og getur gert fyrirtækjum erfitt fyrir að uppfylla kröfur og væntingar neytenda. Dæmin sanna að markaðssetning á mörgum nýjum sjávarafurðum hefur mistekist sl. ár.“