Matthías Imsland, framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs Wow air, hefur nú látið af störfum hjá félaginu að eigin frumkvæði. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins kemur uppsögnin til í góðri sátt á milli Matthíasar og Skúla Mogensen, forstjóra og eiganda Wow air. Skúli hrósaði Matthíasi á starfsmannafundi hjá flugfélaginu sem var að ljúka.

„Þetta hefur verið skemmtilegur tími en jafnframt erfiður, nú eftir að búið er að klára sameiningu við Iceland Express finnst mér gott tækifæri og tímapunktur til að breyta til“ segir Matthías í tilkynningu.

„Ég vil óska Wow air og frábærum starfsmönnum félagsins alls hins besta í framtíðinni og að félagið eigi eftir að dafna áfram sem góður valkostur fyrir neytendur.“

Matthías var ein helsta driffjöðurin að stofnun Wow air á seinni hluta síðasta árs en hann var áður forstjóri Iceland Express. Eins og fram hefur komið keypti Skúli vörumerki og leiðarkerfi Iceland Express í vikunni. Matthías tilkynnti Skúla um uppsögn sína í morgun.