Matthías H. Johannessen hefur verið ráðinn fjármálastjóri Actavis Group hf. og tekur hann til starfa í júlí. Matthías mun heyra undir framkvæmdastjóra fjármálasviðs Actavis Group hf. og bera ábyrgð á fjármálastýringu samstæðunnar. Starf hans mun felast í daglegum rekstri fjármálasviðs, samskiptum við dótturfélög og þróun og stýringu fjármálaferla. Matthías mun taka sæti í stjórnum dótturfélaga Actavis samstæðunnar.

Matthías útskrifaðist með BSc. gráðu í viðskiptafæði frá Háskóla Íslands árið 1999 og með MSc. gráðu í hagfræði og fjármálum frá Copenhagen Business School árið 2002. Undanfarið hefur Matthías starfað sem forstöðumaður hjá áhættustýringu KB banka. Áður starfaði hann hjá HSH Nordbank í Kaupmannahöfn, fyrst sem lánasérfræðingur í málefnum fjármálafyrirtækja og síðar sem viðskiptastjóri í fyrirtækjaviðskiptum. Áður en Matthías hóf nám í Kaupmannahöfn starfaði hann hjá greiningardeild Kaupþings á Íslandi.

Matthías er giftur Sögu Ómarsdóttur, verkefnisstjóra hjá Icelandair, og eiga þau tvo syni.