Grunur leikur á að starfsmaður fjarskiptafyrirtækisins Nova hafi misnotað aðstöðu sína og farið í fjarskiptagögn fyrirtækisins. Manninum hefur verið vikið frá störfum. Fréttablaðið greinir frá því í dag að lögregla rannsaki málið og það hvernig hann hafi dreift gögnunum. Manninum hefur verið vikið frá störfum.

Í Fréttablaðinu segir að málið tengist rannsókn lögreglu á broti lögreglumanns vegna uppflettingar og meðferðar á upplýsingum úr upplýsingakerfi lögreglunnar (LÖKE). Báðir mennirnir voru handteknir skömmu fyrir páska ásamt þriðja manni. Þriðji maðurinn mun vera starfsmaður á lögfræðistofu á höfuðborgarsvæðinu. Sá er grunaður um að hafa tekið við upplýsingunum. Mennirnir þrír eru vinir og hafa þeir réttarstöðu sakborninga við rannsókn lögregluyfirvalda.

Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins eru brot mannanna nokkurra ára gömul en voru ekki kærð fyrr en nýlega.