Það eru hlutir Fjárfestingafélagsins Máttar, sem átti 23,1% í Icelandair Group, og Nausts, sem átti 14,8%, sem eru lunginn úr því sem Íslandsbanki hefur leyst til sín í félaginu, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins. Samtals gera þetta 37,9% en bankinn tilkynnti í morgun að hann hefði leyst til sín 42% og ætti því 47%.

Langflug, sem er með 23,8% í Icelandair Group og var stærsti hluthafinn, er samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins með lán sín vegna hlutabréfanna í Landsbankanum. Ekki hefur verið upplýst um hvað verður um þann hlut, en talið er að styst geti í að samskonar aðgerðir verði kynntar af hálfu Landsbankans vegna hlutafjáreignar í Icelandair Group. Þá er Sparisjóðabanki Íslands skráður fyrir 9,4% hlut í félaginu, en honum er nú stýrt af skilanefnd.

Fjárfestingafélagið Máttur er í eigu Milestone, sem var í eigu Karls og Steingríms Wernerssona, og Einars Sveinssonar og tengdra fjárfesta. Framkvæmdastjóri Máttar er Gunnlaugur Sigmundsson stjórnarformaður Icelandair Group. Naust er í eigu Einars Sveinssonar og tengdra fjárfesta.

Langflug er að stærstum hluta í eigu Finns Ingólfssonar en þar er Gift minnihlutaeigandi.