John McCain, forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, segir ekki loku fyrir það skotið að ríkið geti komið húsnæðiseigendum í Bandaríkjunum til hjálpar. Þessi afstaða er ný af nálinni hjá McCain, en í ræðu sem hann hélt í mars um efnahagsmál sagði hann að undirmálslánakrísan ætti að leysast á forsendum markaðarins, en ekki með inngripum ríkisins. Þetta kemur fram í New York Times.

Á fimmtudaginn snerist McCain í afstöðu sinni og sagði að ríkið gæti mögulega hlaupið undir bagga með illa stöddum húsnæðiseigendum með aðstoð við endurfjármögnun á lánum.

„Það er ekkert jafnmikilvægt og að halda bandaríska draumnum um það að búa í sínu eigin húsi lifandi. Það er því forgangsatriði að tryggja að húsnæðiseigendur sem horfast í augu við nauðungaruppboð geti búið áfram heima hjá sér," sagði McCain í ræðu sem hann hélt í Brooklyn.