Tölvuþjónustan -- SecurStore ehf. (TÞS) er nú að stíga sín fyrstu skref í Bretlandi varðandi þjónustu á öryggisafritun tölvugagna og viðbrögðin á markaðnum lofa góðu, en þjónustunni er áfram stýrt frá Akranesi.

Tölvuþjónustan -- SecurStore ehf. (TÞS) var stofnuð af þeim Alexander Eiríkssyni og Eiríki Þór Eiríkssyni árið 1991. Fyrstu árin var starfsemin aðallega fólgin í rekstrarþjónustu og rekstri verslunar en síðar bættist við internetþjónusta og þjónusta við Navision hugbúnað.

Fyrir tveim árum ákváðu stjórnendur fyrirtækisins að setja á laggirnar afritunarþjónustu fyrir fyrirtæki, þar sem gögn fyrirtækja eru afrituð yfir Internetið inn í gagnamiðstöð TÞS. Við áherslubreytinguna var internetþjónustan seld, og síðar rekstur verslunarinnar. Byggt er á afritunartækni kanadíska fyrirtækisins Asigra sem þróuð hefur verið á sl. 20 árum. SecurStore-afritunarlausnin er örugg afritunar- og endurheimtarþjónusta fyrir netkerfi fyrirtækja og stofnana og ný nálgun á 25 ára gamalli afritunartækni þar sem segulbönd hafa verið geymslumiðill. SecurStore geymir aftur á móti öll gögn fyrirtækisins í öruggri gagnamiðstöð, háþróuðum diskastæðum, og tryggir um leið hraðvirka endurheimt þeirra.

Með SecureStore tækninni er hægt að afrita allar gerðir gagnagrunna yfir netið með litlum undirbúningi. Einungis tekur um hálftíma til klukkutíma að koma tengingunni í samband. Ekki er þörf á sérfræðingum innan fyrirtækjanna til að sinna afrituninni sem er alsjálfvirk. Kostnaðurinn við gagnageymsluna fer einungis eftir því magni sem afritað er og er algjörlega óháð því hvort afritað er af einni eða mörgum vélum, eða hvar þær eru staðsettar í heiminum.