Á fundi forstjóra olíufélaganna þriggja í febrúar 1995 var rætt um hugsanlega samkeppni frá kanadíska olíufélaginu Irving Oil en á þessum tíma var það fyrirtæki að kanna möguleika á því að hefja starfsemi hér á landi. Að öðru leyti hafði fundurinn verið helgaður umræðu um verðmyndun á eldsneyti. Í fundargerð forstjóra Olís er sagt frá því að rætt hafi verið vítt og breytt um áform Irving Oil og að Skeljungur hafi gert grein fyrir athugun á bensínverði á New York markaði.

Tengt þessu er bókun í fundargerð framkvæmdastjórnar Olíufélagsins frá 17. janúar 1995. Þar segir að Einar Benediktsson, forstjóri Olís, hafi sent bréf þar sem hvatt er til þess að olíufélögin hafi undirskriftalista liggjandi frammi á bensínstöðvum sínum þar sem mótmælt yrði byggingu fyrirhugaðra Irving bensínstöðva. Í fundargerðinni segir að þetta sé ekki talið þjóna hagsmunum Olíufélagsins, t.d. vegna þess að þá væri verið að mótmæla byggingu á lóð við Stekkjarbakka sem Olíufélagið hafi sóst eftir því að fá úthlutað.

Í mars 1996 lá fyrir að Irving Oil myndi hætta við að koma inn á íslenska markaðinn og 10. apríl 1996 sendi Olíufélagið þakkarbréf til erlends olíufélags og sendar voru ?our warmest thanks for your assistance in the battle we fought here to keep Irving out of Iceland? .

Samkeppnisráð telur að gögnin sýni að forstjórar olíufélaganna ræddu ítarlega á fundi sínum í mars 1995 um væntanlega samkeppni frá erlendu olíufélagi. Jafnframt liggur fyrir að Olís sendi Olíufélaginu bréf þar sem hvatt var til aðgerða sem sannanlega var ætlað að torvelda innkomu hins erlenda félags. Einnig ber að líta til bréfs Olís frá ágúst 1996 vegna hugsanlegrar samkeppni á Reykjanesi. Af þessum gögnum telur samkeppnisráð ljóst að á árunum 1995?1996 hafi olíufélögin fjallað sameiginlega um mögulega samkeppni frá nýjum keppinautum og sett fram tillögur til að takmarka hana. Samvinna milli keppinauta sem miðar að því að hindra innkomu nýrra keppinauta felur í sér brot á 10. gr. Samkeppnislaga.

Fyrirsögnin er sótt í innanhúspósts eins af starfsmönnum olíufélaganna.