*

föstudagur, 6. ágúst 2021
Innlent 22. maí 2013 13:21

Mega ekki banna gengislán

Eftirlitsstofnun EFTA segir að þótt áhætta geti falist í töku gengislána þá sé of langt gengið að banna þau.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Ísland hefur gerst brotlegt við EES-samninginn með því að leggja algert bann við veitingu gengistryggðra lána í íslenskum krónum, að því er fram kemur í rökstuddu áliti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) frá því í dag. Í álitinu segir að bann við gengistryggingu lána kunni að letja íslenskar fjármálastofnanir í að fjármagna lán sín í öðrum gjaldmiðlum en íslenskum krónum og þar af leiðandi hindra frjálst flæði fjármagns. 

Áhættunnar virði

ESA telur reyndar að þrátt fyrir að gengistryggð lán geti haft áhættu í för með sér fyrir lántakendur þar sem þeir búi oft ekki yfir nauðsynlegri þekkingu til að meta áhættuna þá gangi bann við veitingu gengislána of langt. 

Í álitinu segir orðrétt:

„Samningar með gengistryggingarákvæði kunna að hafa í för með sér áhættu fyrir neytendur. Neytendur fá, að jafnaði, allar sínar tekjur í íslenskum krónum og eru því ekki í stakk búnir til að bregðast við gengissveiflum. Að sama skapi búa neytendur oft ekki yfir nauðsynlegri þekkingu til meta þá áhættu sem felst í gengistryggðum lánasamningum. 

ESA lítur svo á að það kunni að vera lögmætt að takmarka veitingu svo áhættusamra lána til neytenda. Engu að síður er ESA þeirrar skoðunar að algert bann við veitingu slíkra lána til einstaklinga og fyrirtækja gangi lengra en nauðsynlegt er til að standa vörð um hag neytenda. 

Í þessu samhengi telur ESA að Ísland geti náð fram neytendaverndarmarkmiðum með öðrum og vægari úrræðum. Ísland gæti t.d. gert þá kröfu til fjármálastofnana að þær upplýsi neytendur með skýrum hætti um þá áhættu sem getur falist í gengistryggingu áður  en samningur með gengistryggingarákvæði er undirritaður eða veiti neytendum rétt til þess að hætta við gerðan samning innan ákveðinna tímamarka. Önnur sjónarmið eiga við um fyrirtæki. Ólíkt neytendum eiga lögaðilar að hafa nauðsynlega burði til þess að meta þá áhættu sem  fylgt getur töku gengistryggðra lána.“ 

Rökstudda álitið telst lokaaðvörun til Íslands. Ísland fær nú tækifæri til að gera viðeigandi ráðstafanir til að bregðast við álitinu ella getur ESA ákveðið að fara með málið fyrir EFTA dómstólinn. 

Stikkorð: ESA Eftirlitsstofnun EFTA EFTA Gengislán