Stofnun sem sér um eftirlit með mannréttindum í Frakklandi er að rannsaka fataverslanakeðjuna Abercrombie and Fitch (A&F) vegna meintrar mismununar í ráðningu á starfsfólki.

Málið snýst um starfsfólk, sem A&F kallar fyrirsætur en ekki sölufólk, en myndarlegir ungir menn eru til staðar í verslununum og geta viðskiptavinir látið taka myndir af sér við hliðina á mönnunum berum að ofan, en það munu einkum vera kvenkyns viðskiptavinir sem nýta sér þessa þjónustu.

Vegna þess að um er að ræða „fyrirsætur“ en ekki sölufólk segir A&F að hægt sé að gera kröfur um líkamlegt útlit þegar kemur að ráðningu. Mannréttindastofnunin vill hins vegar meina að mennirnir séu í raun sölumenn og því sé ólöglegt að ráða þá á grundvelli útlits. Ráðningarferli A&F brjóti því gegn frönskum lögum um mismunun.