Kyrrsetning á iðnaðarhúsnæði við Smiðshöfða í Reykjavík í eigu Ingólfs Helgasonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings á Íslandi, og Steingríms P. Kárasonar, fyrrverandi forstöðumanns áhættustýringar bankans, náði aðeins til hússins sjálfs en ekki þess sem var inni í því.

Slitastjórnin fékk húsið kyrrsett í fyrrasumar og vildi fá að kíkja inn í það meðal annars til að komast yfir verðmætar birgðir af eðalvínum sem talið var að þar væri að finna. Áætlað verðmæti vínlagersins átti að nema á bilinu 200 til 300 milljónum króna. Að öðru leyti var ekki vitað hvað leyndist í iðnaðarhúsnæðinu.

Sýslumaðurinn í Reykjavík veitti slitastjórninni ekki heimild til að fara inn í húsnæði og fengust lyklavöldin ekki fyrr en nýverið með dómi Hæstaréttar.

Eins og frá var greint í síðustu viku greip slitastjórnin í tómt þegar inn var komið að því undanskildu að þar mátti finna búslóðir þeirra Ingólfs og Steingríms sem báðir fluttu til Lúxemborgar eftir bankahrunið og átta ára gamlan bilaðan bíl. Búslóðirnar eru taldar lítils virði.

Kyrrsetning læsir engum dyrum

Jóhannes B. Björnsson, lögmaður Steingríms P. Kárasonar, segir það hafa verið getgátur einar að inni í iðnaðarhúsinu hafi leynst birgðir af eðalvínum. Hann staðfestir jafnframt að kyrrsetningin hafi aðeins náð til hússins en ekki til þess sem inni í því var. „Þegar hús er kyrrsett þá jafngildir það bráðabirgðaveði í því til tryggingar kröfu. Hún nær aðeins til hússins en ekki til lausafjármuna sem eru inni í húsinu. Ef eitthvað lausafé er talið vera inni í húsinu þá þarf að fara inn í það, sjá hvað þar er og hugsanlega skrifa það upp,“ segir hann.

Kaupþing uppgjör
Kaupþing uppgjör
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)

Kaupþingsstjórar funda. Steingrímur P. Kárason er fremstur á myndinni.