*

föstudagur, 6. desember 2019
Innlent 6. maí 2019 16:05

Meira en helmingur styður ríkisstjórnina

Ríkisstjórnin hefur ekki mælst með meiri stuðning síðan síðasta sumar, en fylgi flokkanna breytist lítið.

Ritstjórn
Frá myndun ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og formanns Vinstri grænna með Bjarna Benediktssyni formanni Sjálfstæðisflokksins og Sigurði Inga Jóhannssyni formanni Framsóknarflokksins.
Haraldur Guðjónsson

Mesti stuðningur við ríkisstjórnina í næstum því ár, eða frá því í júní í fyrra, mældist í nýjum þjóðarpúlsi Gallup, en hann jókst um fjögur prósentustig milli mánaða. Segjast nú tæplega 52% þeirra sem taka afstöðu styðja ríkisstjórn Vinstri Grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Fylgi flokka breytist lítið milli mánaða, eða um 0,1-1,7 prósentustig, og eru breytingarnar ekki tölfræðilega marktækar. Tæplega 24% þeirra sem taka afstöðu segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn færu kosningar til Alþingis fram í dag, rúmlega 16% Samfylkinguna, ríflega 13% Vinstri græn, liðlega 11% Pírata og nær sama hlutfall Viðreisn.

Næstum 9% segjast myndu kjósa Miðflokkinn, 8% Framsóknarflokkinn, 4% Flokk fólksins og tæplega 4% Sósíalistaflokk Íslands. Tæplega 13% segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa og 9% taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp.

Hér má sjá samanburð við fylgi flokkanna nú og úrslit þingkosninganna 28. október 2017:

  • Sjálfstæðisflokkur - 23,6%, en fengu 25,3% í alþingiskosningum og 16 þingmenn
  • Samfylkingin - 16,2%, en hún fékk 12,1% og 7 þingmenn
  • Vinstri græn - 13,3%, en fengu 16,9% og 11 þingmenn
  • Píratar - 11,1%, en fengu 9,2% og 6 þingmenn
  • Viðreisn - 11,0%, en fengu 6,7% og 4 þingmenn
  • Miðflokkurinn - 8,9%, en fengu 10,9% og 7 þingmenn
  • Framsóknarflokkurinn - 8,0%, en fengu 10,7% og 8 þingmenn
  • Flokkur fólksins - 4,0%, en fengu 6,9% og 4 þingmenn
  • Sósíalistaflokkurinn - 3,6%, en flokkurinn bauð ekki fram síðast