Mesti stuðningur við ríkisstjórnina í næstum því ár, eða frá því í júní í fyrra, mældist í nýjum þjóðarpúlsi Gallup, en hann jókst um fjögur prósentustig milli mánaða. Segjast nú tæplega 52% þeirra sem taka afstöðu styðja ríkisstjórn Vinstri Grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Fylgi flokka breytist lítið milli mánaða, eða um 0,1-1,7 prósentustig, og eru breytingarnar ekki tölfræðilega marktækar. Tæplega 24% þeirra sem taka afstöðu segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn færu kosningar til Alþingis fram í dag, rúmlega 16% Samfylkinguna, ríflega 13% Vinstri græn, liðlega 11% Pírata og nær sama hlutfall Viðreisn.

Næstum 9% segjast myndu kjósa Miðflokkinn, 8% Framsóknarflokkinn, 4% Flokk fólksins og tæplega 4% Sósíalistaflokk Íslands. Tæplega 13% segjast myndu skila auðu eða ekki kjósa og 9% taka ekki afstöðu eða neita að gefa hana upp.

Hér má sjá samanburð við fylgi flokkanna nú og úrslit þingkosninganna 28. október 2017:

  • Sjálfstæðisflokkur - 23,6%, en fengu 25,3% í alþingiskosningum og 16 þingmenn
  • Samfylkingin - 16,2%, en hún fékk 12,1% og 7 þingmenn
  • Vinstri græn - 13,3%, en fengu 16,9% og 11 þingmenn
  • Píratar - 11,1%, en fengu 9,2% og 6 þingmenn
  • Viðreisn - 11,0%, en fengu 6,7% og 4 þingmenn
  • Miðflokkurinn - 8,9%, en fengu 10,9% og 7 þingmenn
  • Framsóknarflokkurinn - 8,0%, en fengu 10,7% og 8 þingmenn
  • Flokkur fólksins - 4,0%, en fengu 6,9% og 4 þingmenn
  • Sósíalistaflokkurinn - 3,6%, en flokkurinn bauð ekki fram síðast