Seðlabankinn seldi í gjaldeyrisútboði í dag evrur fyrir krónur að fjárhæð 8,2 milljarðar króna. Alls bárust 43 tilboð í evrur að fjárhæð 12,4 milljarðar króna og eins og áður segir var tilboðum tekið fyrir 8,2 milljarða króna. Gengið var 226 krónur á evru. Á hinni hlið útboðsins seldi Seðlabankinn evrur fyrir krónur í sambærilegu magni. Var gengið í því útboði 225 krónur.

Eftir söluæðið á skuldabréfamarkaði í síðustu viku, þegar erlendir viðskiptavinir Straums seldu um 20 milljarða króna af íslenskum skuldabréfum, var líkum að því leitt að þetta fé myndi leita útgöngu úr íslenska hagkerfinu í gegnum útboð Seðlabankans. Vissulega voru fjárhæðirnar í þessu útboði hærri en í síðustu útboðum bankans, en ekki var munurinn þó gríðarlegur. Þannig keypti Seðlabankinn krónur fyrir evrur að fjárhæð 5,7 milljarða í febrúar og 6,8 milljarða króna í desember. Í síðarnefnda útboðinu bárust tilboð að fjárhæð 19,9 milljarðar króna og miðað við þá fjárhæð var eftirspurnin meiri í desember en í dag. Í apríl í fyrra keypti Seðlabankinn 9,1 milljarð króna fyrir evrur í slíku útboði og er því fjárhæðin í útboðinu í dag ekki einsdæmi.