Vegna meiri hagvaxtar en gert hafði verið ráð fyrir í nóvemberhefti Peningamála og horfum á að áfram verði umtalsverð spenna í þjóðarbúskapnum segir Seðlabankinn. Það ásamt minnkandi útflutningi og aukinni innlendri eftirspurn, sem komi til af meiri slaka á ríkisfjármálum, kalli á peningalegt aðhald.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá rétt í þessu hefur peningastefnunefnd bankans ákveðið að meginvextir bankans, innlán bundin í sjö daga verði áfram í 4,25%, sem bæði Arion banki og Íslandsbanki spáðu, meðan Landsbankinn spáði lækkun um 0,25 prósentustig.

Segir bankinn að framhaldið ráðist af framvindu efnahagsmála, og nefnir þar sérstaklega stefnuna í opinberum fjármálum og niðurstöðu kjarasamninga, en slakinn hafi verið meiri í opinberum fjármálum á yfirstandandi ári en áður hafði verið talið.