Peningastefnunefnd
Peningastefnunefnd
© Aðsend mynd (AÐSEND)
Meiri sátt ríkti um síðustu vaxtaákvörðun peningastefnunefndar, þegar ákveðið var að halda stýrivöxtum óbreyttum, heldur en við vaxtaákvörðunina í apríl. Síðast studdu allir nefndarmenn tillögu seðlabankastjóra en í apríl kaus einn nefndarmanna gegn tillögu Más Guðmundssonar seðlabankastjóra.

Greining Íslandsbanka bendir á þetta í Morgunkorni sínu í dag. „Við ákvörðunina í apríl kaus einn nefndarmaður gegn tillögu Más Guðmundssonar bankastjóra um óbreytta vexti og má því segja að meiri sátt hafi ríkt um ákvörðunina í júní en í apríl, þrátt fyrir versnandi verðbólguhorfur til skemmri tíma litið eftir því sem leið á ársfjórðunginn. Horfðu nefndarmenn þar til þess að verulegur slaki verður væntanlega áfram í þjóðarbúskapnum, auk þess sem peningamagn í umferð og útlán hafa dregist saman, sem bendir til þess að aukin verðbólga sé tímabundin og að hún muni sækja í 2,5% markmið bankans á ný þegar fram í sækir,“ segir í Morgunkorni.

Hún telur það jákvætt að nefndin einblíni ekki á verðbólguþróun til skemmri tíma og breyttar væntingar. Hvort tveggja gæti færst til betri vegar á næstunni, ef lát verður á kostnaðarskellum.