Fleiri eru andvígir en hlynntir sölu léttvíns, bjórs og sterks víns í matvöruverslunum samkvæmt nýrri könnun Maskínu . Andstaðan er mun meiri gegn sölu sterks áfengis en léttvíns og bjórs.

Þannig eru um 40% landsmanna hlynnt sölu bjórs og léttvíns í matvöruverslunum, en um 45% andvíg. Hins vegar eru aðeins tæplega 16% hlynnt sölu sterks áfengis í matvöruverslunum en 71% andvíg. Einnig sýndu niðurstöðurnar að um 58% eru ekki hlynnt sölu á neinu áfengi í matvöruverslunum, tæplega 23% eru hlynnt sölu bjórs en tæplega 15% hlynnt sölu á öllu áfengi í matvöruverslunum.

Könnunin var framkvæmd á netinu og fór fram dagana 28. nóvember til 8. desember 2014. Íslendingar af báðum kynjum á aldringum 18-74 ára tóku þátt. Svarendur voru 758 og voru gögnin vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu í samræmi við upplýsingar úr Þjóðskrá.