Tveir af hverjum þremur landsmönnum vilja ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið og setja samning í þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Fréttablaðsins og Stöðvar 2.

Þriðjungur vill draga aðildarumsóknina til baka. Alls vildu 65,3 prósent þeirra sem afstöðu tóku í könnuninni ljúka viðræðunum en um 34,7 prósent sögðust vilja draga umsóknina til baka. Heldur fleiri vilja ljúka aðildarferlinu nú en þegar síðast var spurt um aðildarumsóknina í könnun Fréttablaðsins og Stöðvar 2, í september síðastliðnum. Þá vildu 36,6 prósent draga umsóknina til baka en 63,4 prósent ljúka viðræðunum.

Meirihluti þeirra sem segjast myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn yrði gengið til kosninga nú vill ljúka viðræðunum, eða 56,4 prósent stuðningsmanna flokksins.

Stuðningsmenn Framsóknarflokksins voru afgerandi í andstöðu við aðildarviðræðurnar. Um 63,3 prósent vildu draga umsóknina til baka en 36,7 prósent halda viðræðunum áfram.

Þorri stuðningsmanna Samfylkingarinnar, 94,6 prósent, vill ljúka viðræðunum, einungis 5,4 prósent vilja draga umsóknina til baka.

Meðal stuðningsmanna Vinstri grænna sögðust 76,2 prósent vilja ljúka viðræðunum.