Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Meniga hlaut verðlaun fyr­ir bestu tækninýjungina á ráðstefnunni Finovate Europe 2018 sem haldin var í London í síðustu viku. Á ráðstefn­unni kynntu 70 útvalin fyr­ir­tæki tækninýj­ung­ar í banka- og fjár­málaþjón­ustu fyr­ir um 1,500 þátt­tak­end­um.

Í fréttatilkynningu segir að Fin­ovate Europe er þekktasta og virt­asta ráðstefna Evrópu í tækninýj­ung­um fyrir fjár­málaþjón­ustu og eru verðlaun­in „Best of Show“ árlega veitt þeim fyr­ir­tækj­um sem tal­in eru skara fram úr í fjármálatækni. Meniga hefur áður hlotið hin virtu verðlaun árin 2011, 2013 og 2015. Meniga hefur þar með unnið verðlaunin fjórum sinnum á átta árum sem gerir Meniga að sigursælasta fyrirtæki sem tekið hefur þátt í ráðstefnunni frá upphafi.

Í verðlauna­kynn­ing­unni kynntu Finnur Magnússon, vöruhönnuður og Haukur Ísfeld, iOS forritari, nýj­ustu lausn Meniga. Lausnin hjálpar bönkum að nýta gögn sín betur til að bjóða viðskiptavinum betri snjallsíma- og netbanka notendaupplifun svo sem persónumiðaðar tillögur að veitingastöðum og aðstoð við að skera niður óþarfa áskriftir.