Ný sköpunarfyrirtækið Meniga stendur á tímamótum, en félagið verður tíu ára á næsta ári. Georg Lúðvíksson, forstjóri Meniga, segir að þegar fyrirtækið var stofnað árið 2009 hafi upphaflega viðskiptaáætlunin byggst á tveimur skrefum. „Skref eitt var að búa til heimilisfjármálahugbúnað og selja til banka víða um heim og vinna traust banka og neytenda. Okkur hefur tekist mjög vel að gera það,“ segir hann.

Yfir 75 milljónir manns nota netbanka sem drifinn er áfram af hugbúnaði Meniga með einum eða öðrum hætti en þaðan koma yfir 90% af tekjum fyrirtækisins í dag. „Það sem byrjaði sem heimilisfjármálahugbúnaður hefur þróast yfir í Lego-kubba fyrir netbanka. Það hefur því mikið breyst. Við höfum komist að því að sama hversu auðvelt er að nota hugbúnaðinn þá er bara ákveðinn stór hópur sem heldur heimilisbókhald þannig að við höfum verið að færa okkur út í öðruvísi lausnir,“ segir Georg.

„Við erum komin af sprotastigi fyrir löngu og yfir í vaxtastig. Við vorum við með 12,5 milljónir evra í tekjur í fyrra og 50% tekjuvöxt og vorum nokkurn veginn á núllinu, bæði hvað varðar EBITDA (rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði) og sjóðstreymi,“ segir Georg. Áætlanir Meniga geri ráð fyrir 30% tekjuvexti á yfirstandandi rekstrarári.

Búa til verðmæti úr gögnunum

„Skref tvö átti svo alltaf að vera að búa til einhver verðmæti úr gögnunum með því að hjálpa fólki að nýta peningana sína betur eða finna betri tilboð í samtarfi við banka og taka samgjarna hlutdeild af þeim sparnaði. Þetta seinna skref er eitthvað sem núna fyrst er að taka flugið hjá okkur. Núna fyrst eru réttu aðstæðurnar á markaði að verða til,“ segir Georg.

Íslandsbanki og Meniga gáfu á síðasta ári út vildarkerfið Fríðu, sem er skref í þá átt. „Notendur Meniga og heimabanka hjá Íslandsbanka eru spurðir hvort þeir vilja að við leitum að tilboðum og afslætti sem passa við þeirra færslur. „Annaðhvort hjá búðum þar sem þú ert þegar að versla eða hjá þeim fyrirtækjum sem vilja keppa um þín viðskipti og bjóða þér kynningarverð. Loforðið er að bjóða þér bara tilboð sem passa við þitt neyslumynstur,“ segir Georg. Með þessu móti geti notendum Fríðu boðist betri kjör á vörum sem þeir hafi áhuga á og auglýsendur geti náð með betri hætti til neytenda innan þeirra markhóps og nýtt tekjumódel verði til fyrir banka, og bankarnir geti í leiðinni styrkt sambandið við sína viðskiptavini. Georg segir Meniga hafa fjárfest talsvert á undanförnum árum í þessari lausn.

„Við sóttum áhættufjármagn fyrir fimm árum til að þróa þessa lausn sem er núna í heimsklassa,“ segir hann. „Ef við náum þessu á stórum skala er þetta okkar einhyrnings möguleiki.“ Hugtakið einhyrningur er notað um nýsköpunarfyrirtæki, sem metin eru á yfir einn milljarð Bandaríkjadala, um 120 milljarða íslenskra króna. „Það eru gríðarlega spennandi tímar því að við erum um það bil að fara í mjög stór verkefni á þessu sviði á Norðurlöndunum eftir að hafa prófað þetta hérna heima. Við sjáum fram á að geta vaxið mjög mikið næstu misserin ef þetta gengur vel,“ segir hann.

Meniga hefur blásið til ráðstefnu í Hörpu á þriðjudaginn í næstu viku, undir nafninu Fin 42 t il að ræða þær öru breytingar sem eru að verða í fjármálakerfinu. Þar verða fyrirlesarar víða að úr heiminum sem eru leiðandi á sviði fjártækni og nýsköpunar í bankageiranum. „Rauði þráðurinn í þessu er að við erum að reyna að hjálpa bönkum að þróast þannig að netbankinn fari frá því að vera staður til að stunda bankaviðskipti eingöngu, sem er auðvitað grunnurinn, yfir í að verða rafrænn fjármálaráðgjafi í miklu víðara samhengi,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .