The Hunting Specialists er nýstofnað fyrirtæki sem, eins og nafnið gefur til kynna, sérhæfir sig í veiðiferðum fyrir ferðamenn, innlenda sem erlenda. Fyrirtækið er staðsett á Mjóeyri við Eskifjörð og er framkvæmdastjóri þess Heimir Snær Gylfason.

„Við höfum verið að reyna að auka umsvif okkar aðeins. Einn félaga minna í fyrirtækinu er hreindýraleiðsögumaður og hinn hefur verið í fiskveiði í Evrópu. Sjálfur er ég svo gríðarlegur áhugamaður um veiðar og hef verið að veiða alveg frá barnæsku,“ segir Heimir. „Við ákváðum að samnýta okkar þekkingu og reynslu í að ná inn þessum svokölluðu öxlum á ferðamannatímabilinu,“ bætir hann við. Hreindýraveiðitímabilið er nýhafið en að sögn Heimis er áherslan mest á stangveiði á vorin og framan af sumri. „Þegar hreindýraveiðin er annars vegar eru það þó öðru fremur Íslendingar sem við þjónustum enda eiga útlendingarnir erfitt með að fá leyfi til þess. Það eru kannski á bilinu 50-80 útlendingar sem sækja um leyfi til hreindýraveiða,“ segir hann.

„Við höfum einbeitt okkur svolítið meira að erlendum ferðamönnum til þess að byrja með enda er lag til þess núna m.a. vegna veiks gengis og vandræða Íslands,“ segir Heimir en bætir því við að eldgos á Íslandi og kreppa úti í heimi hafi dregið úr markaðnum. Þá hafi gengið illa að fá erlendu ferðamennina til þess að staðfesta pantanir sínar tímanlega. Flestir staðfesti með aðeins nokkurra daga fyrirvara sem torveldi áætlanagerð talsvert sérstaklega á háannatíma. „Útlendingarnir eru ekki mjög frábrugðnir Íslendingunum í þessum skilningi,“ segir hann en bætir því við að útlendingar séu almennt tilbúnir til þess að borga meira en Íslendingar. Aðspurður segir hann verð á fimm daga veiðiferð vera um 300 þúsund og inni í því sé allur búnaður. „Menn geta komið á brókinni og við útvegum þeim það sem til þarf.“

Eins og fram kemur hér að framan er fyrirtækið staðsett í Neskaupstað og segir Heimir að enn sem komið er starfi þeir félagar eingöngu á Austurlandi . „Við höfum verið að tryggja okkur svæði á vesturhluta landsins því ef eitthvað skyldi klikka hérna megin þá erum við að svíkja viðskiptavini ef við höfum ekkert í bakhöndinni.“

Greinin birtist á veiðisíðu Viðskiptablaðsins 28. júlí.