Mentis Cura ehf. hlaut Nýsköpunarverðlaun Rannís, Nýsköpunarmiðstöðvar og Útflutningsráðs árið 2009 sem afhent voru á Nýsköpunarþingi í morgun. Mentis Cura hefur þróað aðferðir til að greina heilabilanir með heilaritum og nútímamyndgreiningartækni.

Fyrirtækið stundar viðamiklar klínískar rannsóknir og þróar reiknirit sem miðast m.a. að því að styðja við greiningu Alzheimer sjúkdómsins og ofvirkni í börnum. Nýlega var greint frá rannsóknum félagsins í Viðskiptablaðinu.

Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra afhenti Kristni Johnsen framkvæmdastjóra og stofnanda Mentis Cura verðlaunin. Metþátttaka var á Nýsköpunarþingi en 250 manns voru viðstaddir fundinn.

Nýsköpunarverðlaunin voru fyrst veitt árið 1994 en tilgangur þeirra er að vekja athygli á þeim mikilvægu tengslum sem eru á milli aukinnar verðmætasköpunar í atvinnulífinu og rannsókna og þekkingaröflunar. Á meðal fyrirtækja sem hlotið hafa Nýsköpunarverðlaunin eru ORF Líftækni (2008), CCP (2005), Bláa lónið (2000) og Íslensk erfðagreining (1998).

Nánar um Mentis Cura Mentis Cura var stofnað árið 2004 af Kristni Johnsen eðlisfræðingi, nú framkvæmdastjóra, og Lyfjaþróun hf. Starfsemi Mentis Cura er margþætt og krefst sérþekkingar á ólíkum sviðum, en starfsmenn fyrirtækisins eru nú sjö. Í fyrstu einbeitti Mentis Cura sér að því að þróa aðferðir til að greina heilabilanir hjá öldruðum. Sérstök áhersla var lögð á greiningu Alzheimers sjúkdómsins en skortur hefur verið á magnbundnum leiðum til að styðja við greiningu hans. Frumþróun greiningartóls fyrir Alzheimer er að mestu lokið og nú býður Mentis Cura greiningu á heilaritum fyrir heilbrigðisstofnanir, sérstaklega í Noregi. Varkárar áætlanir gera ráð fyrir að velta Mentis Cura vegna þjónustu við greiningu á Alzheimer verði með tímanum um 900 milljónir króna. Mentis Cura er einnig komið af stað með þróun magnbundinna aðferða til þess að aðstoða við greiningu á ofvirkni í börnum. Sú þróun er unnin í nánu samstarfi með barna og unglingageðdeild Landspítala Háskólasjúkrahúss. Á frumstigi eru rannsóknir sem snúa að greiningu á þunglyndi. Framtíð Mentis Cura hvílir á fjölbreyttri starfsemi og margvíslegu samstarfi. Fyrirtækið hefur alla burði til að vaxa og dafna um langa framtíð.