*

miðvikudagur, 15. júlí 2020
Erlent 20. júlí 2019 12:01

Messenger-millifærslur yfir hálfan hnöttinn

Útgáfa Libra verður, ólíkt rafmyntum á borð við Bitcoin, miðlæg og verðgildið stöðugt og tryggt með varasjóði.

Júlíus Þór Halldórsson
Libra-samtökin munu halda utan um útgáfu rafeyrisins, og bálkakeðjuna sem að baki honum liggur.
Aðsend mynd

Fimmtungur mannkyns notar Facebook daglega, og tæpur þriðjungur mánaðarlega, og þeim fjölgar um hálfa milljón daglega. Á hverri mínútu lýsa 4 milljónir notenda því yfir að þeim líki við færslu á samfélagsmiðlinum, og yfir 250 milljörðum ljósmynda hefur verið deilt þar. Á dögunum var tilkynnt að fyrirtækið hygðist gefa út sinn eigin gjaldmiðil á næsta ári: Libra.

Líkt og rafmyntir á borð við Bitcoin verður hann byggður á bálkakeðjutækninni (e. blockchain), en ólíkt rafmyntum munu aðeins ákveðnir aðilar geta gefið hann út. Það hlutverk verður á hendi Libra-samtakanna (e. Libra Association), sjálfseignarstofnunar sem samanstendur í dag af 28 fyrirtækjum, en stefnt er að því að þau verði um 100 talsins þegar fram líða stundir. Meðal þeirra sem samtökin samanstanda af í dag eru Visa, Mastercard, Paypal, Uber og Spotify.

2 milljarðar án bankareiknings
Eitt af helstu markmiðum verkefnisins er að veita þeim 2 milljörðum jarðarbúa sem ekki hafa aðgang að bankaþjónustu tækifæri til að stunda viðskipti á öruggari, fljótlegri, þægilegri og ódýrari hátt en áður. Sérstaklega má benda á Indlandsmarkað í því sambandi, en um 190 milljónir Indverja eiga ekki bankareikning, en Indverjar eru fjölmennasta þjóð á Facebook, með um 270 milljónir notenda. 

Afríka, og þá sérstaklega hlutinn sunnan við Sahara-eyðimörkina, er annað svæði sem Libra gæti gjörbylt. Millifærslur þar eru gríðarlega kostnaðarsamar, samkvæmt nýlegri rannsókn kostar um 20 Bandaríkjadali að senda 200 dali, og almennt er það um 20% dýrara en nokkurs staðar annars staðar í heiminum. Efasemdamenn hafa þó meðal annars bent á að ráðamenn í þróunarlöndum hafa jafnan bein völd yfir nettengingu þjóðarinnar. Það geti því reynst varasamt að nota gjaldmiðil sem er háður því að viðkomandi sé nettengdur.

Auk þess að hjálpa bankalausum þjóðfélagshópum að stunda viðskipti sín á milli, verður mun ódýrara og fljótlegra að millifæra fjármuni milli landa og fjármálakerfa en það sem boðið er upp á í dag. Þetta hefur ávallt verið einn helsti kostur rafmynta, en þrátt fyrir að um áratugur sé síðan Bitcoin kom fram á sjónvarsviðið – og verð einnar einingar hinnar upprunalegu rafmyntar standi nú í rúmum 1,6 milljónum króna – hefur hún aldrei náð fótfestu sem gjaldmiðill. Til þess er verðgildi hennar einfaldlega of sveiflukennt, enda ekkert nema trú manna á bak við verðmatið.

Innviðir Facebook komi sér vel
Libra verður hins vegar annars eðlis. Eins og komið var inn á hér að ofan verður útgáfa hennar miðlæg. Í krafti þess verður svo gengi Libra gagnvart myntkörfu hefðbundinna gjaldmiðla fyrirfram ákveðið og fest. Stöðugleiki gengisins verður tryggður með því að öllum fjármunum sem notendur verja í kaup á Libra verður fjárfest í varasjóð, til að tryggja að ávallt verði til fé til að greiða notendum út, vilji þeir skipta Librunum til baka.

Þessi tegund rafeyris hefur stundum verið kölluð stöðugleikamynt (e. stablecoin), en Kristján Mikaelsson, formaður Rafmyntaráðs Íslands, segir það flóknasta við þær vera hvernig notendur verði sér úti um myntina. Ekki sé hægt að grafa eftir henni líkt og rafmyntum, heldur þurfi að kaupa hana af hinum miðlæga útgefanda. „Þar kemur sérstaða Facebook inn, sem þegar á og rekur alla þá innviði sem til þarf. Þú leggur einfaldlega inn á þá og þeir uppfæra Libra innstæðuna hjá þér á móti.“ Þá geri innviðir Facebook það einnig tiltölulega einfalt að standast þær peningaþvættisreglur sem gildi um fjármálastarfsemi.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.