Atvinnuleysi á Spáni, fjórða stærsta ríkis Evrópusambandsins, mældist 21,3% á fyrsta ársfjórðungi og hækkaði úr 20,3%. Heildarfjöldi atvinnulausra er nú nærri 5 milljónir manna og hefur ekki verið meira í 14 ár, samkvæmt Hagstofu Spánar.

Stjórnvöld á Spáni tilkynntu í gær um aðgerðir sem ráðast á í vegna mikils atvinnuleysis og til að draga úr svartri atvinnustarfsemi. Í grein Financial Times segir að aðgerðunum sé ætlað að hvetja fyrirtæki til að skrá réttilega hverjir eru með vinnu. Svartur markaður hefur þrifist vel á Spáni og vilja stjórnvöld draga úr þeim fjölda sem þiggur atvinnuleysisbætur samhliða svartri atvinnu.