Töluverð velta var með skuldabréf í Kauphöllinni í gær eftir tilkynningu forseta Íslands þar sem hann synjaði nýsettum lögum um ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldbindinga staðfestingu.

Heildarvelta dagsins með skuldabréf nam um 15,8 milljörðum króna og hækkaði skuldabréfavísitala GAMMA um 0,1%.

Heildarvelta verðtryggðra skuldabréfa nam um 2 milljörðum króna en heildarvelta óverðtryggðra skuldabréfa nam um 13,8 milljörðum króna.

Strax í gærmorgun greindi Greining Íslandsbanka frá því að markaðurinn hefði sýnt nokkur viðbrögð við ákvörðun forsetans og fjárfestar hafið að selja óvertryggð ríkisskuldabréf og kaupa verðtryggð.

Um hádegi hafði krafa óverðtryggðu bréfanna þannig hækkað um 13-26 punkta frá opnun en krafa þeirra verðtryggðu lækkað um 1-2 punkta.

Í lýsingu GAM Management (GAMMA) á skuldabréfavísitölunni segir að töluverður muni hafi verið á þróun verðtryggðra bréfa og óverðtryggðra. Þannig lækkaði GAMMAxi (óverðtryggð bréf) um 0,71% í gær, sem er mesta lækkun óverðtryggðra bréfa frá 3. júlí 2009, á meðan GAMMAi (verðtryggð bréf) hækkaði um 0,41%.

Greining Íslandsbanka segir viðbrögðin endurspegla að fjárfestar reikni nú með minni lækkun stýrivaxta Seðlabankans í lok janúar, líklegt sé að næstu endurskoðun á áætlun AGS og stjórnvalda verði frestað og að líklegra sé nú en ella að lánshæfi ríkissjóðs verði lækkað.